Senn líður að lokum starfsferils míns á gjörgæsludeild Háskólasjúkrahússins í Stavanger. Ég get ekki neitað því að mér er tregt tungu að hræra og loftvægi ljóðpundara og almennt allt það sem Egill Skallagrímsson kvartaði yfir í Sonatorreki. Ég á helgarvakt á deildinni þessa helgi og klukkan 14 á sunnudaginn hef ég þar moppu á loft í hinsta sinn. Þetta er hábölvað þar sem gjörgæsludeildin er bráðskemmtilegur atvinnuvettvangur og maður er kominn þokkalega inn í daglegt líf (og dauða) þarna á svæðinu.
Ég kvaddi vinnufélaga mína í gær með íslensku sælgæti sem Borghildur vinkona okkar sendi frá Íslandi. Þristur, Bingókúlur og Nizza runnu ljúflega ofan í Norðmennina sem þó eiga sér ágæta sælgætismenningu sjálfir og meira að segja eigið súkkulaði frá Bergen, þrælefnilegt. Einn læknir og einn hjúkrunarfræðingur höfðu verið í starfsnámi á Landspítalanum í Fossvogi einhvern tímann og læknirinn greip andann á lofti þegar hann sá poka af Bingókúlum hér í Noregi eftir 10 ára fjarveru (hvað hefði hann sagt hefði ég sveiflað íslensku brennivíni?).
Á mánudaginn tekur við fimm vikna dvöl á næstu deild, sem ég man ekki í svipinn hver er, og þar á eftir fimm vikur á poliklinisk sengepost. Hljómar eins og pólitísk sæng. Þar er kannski komin hin hlýja flokkssæng sem Besti flokkurinn hefur gagnrýnt svo mjög uppi á Íslandi, hver veit?
Hér skín brennandi sól sem aldrei fyrr og Dagbladet varar sérstaklega við því að í Rogalandi öllu muni hár hiti leika við himin sjálfan eins og segir í Völuspá. Þá er nú munur að geta verið innandyra að minnsta kosti fyrri hluta dags á meðan ég moka flórinn undan gjörgæslugenginu.
Ég hef hafið neyslu kreatínsins Tricreatine frá Proteinfabrikken. Ólíkt þeirra hefðbundna kreatíni, sem heitir bara Creatine og ég hef greint hér ítarlega frá, rífur þríkreatínið hroðalega í og er sem beiskur kaleikur við hlið systurframleiðslunnar. Hvorki fylgja þar niðurgangur né ofsakláði en virknin felur fyrst og fremst í sér að mér líður dags daglega eins og ég hafi étið óðs manns skít en það er ágæt tilfinning. Á æfingum gefur Tricreatine meira úthald og endalaust pump (þeir vita hvað ég meina sem til þekkja) og maður dregst með eftirgangsmunum í sturtu…dvölin þó fín þegar þangað er komið. Ég bíð spenntur eftir sjödagaáhrifunum og vigtun í næstu viku.
Þá styttist í flutninga, miskunnarlausar tae kwon do-æfingar og röð af vinnuhelgum. Þar fyrir utan þarf maður helst að fá sér eitt og eitt glas. Það er rétt að maður komist á salernið fyrir annríki.