Jón Hilmar Hallgrímsson – in memoriam

jn hilmar“Fyrirgefðu, má ég spyrja þig hvað þú ert þungur?” spurði einhver fyrir aftan mig þar sem ég var að ljúka setti í axlapressu með handlóðum í World Class við Fellsmúla snemmsumars 1997. Ég sneri mér við og horfðist í augu við ljóshærðan grannvaxinn pilt og þó nokkrum sentimetrum hærri en ég sem er svo sem ekki öllum í lófa lagið.

“99,4 í dag, þoli ekki að vera í tveggja stafa tölu!” svaraði ég af nokkrum tilfinningahita enda verulega ósáttur við of lágar tölur á vigtinni á þessu tímabili æskunnar þegar pósturinn minn var nánast sendur í World Class. Þessi athugasemd þótti ljóshærða risanum greinilega bráðfyndin því hann tók bakföll af hlátri og tjáði mér svo, fullur hluttekningar, að hann skildi þessar þjáningarfullu sálarflækjur mínar ofurvel, þær væru einnig hans. (MYND: Pressan.is.)

Þetta var Jón Hilmar Hallgrímsson og tókust á þessum tíma með okkur kynni sem héldu fram í það síðasta en mér brá illilega eins og fjöldamörgum öðrum þegar ég las það á vefsíðum íslenskra fjölmiðla í morgun að þetta unga heljarmenni hefði orðið bráðkvatt á heimili sínu í nótt, rétt skriðinn yfir þrítugt.

Ævinlega hittumst við í líkamsræktinni í meira en áratug og eitthvað lágu leiðir okkar saman í næturlífinu líka enda nær útilokað að rekast ekki á þetta heltanaða ljóshærða tröll væri hann yfirleitt á höfuðborgarsvæðinu. Mér er minnisstæð kurteisi Jóns, breitt bros og þau almennilegheit sem hann sýndi samferðamönnum sínum…að minnsta kosti þeim sem hann taldi þess verðuga. Honum var í lófa lagið að bregða fyrir sig stimamýkt og kurteisi sem fæstir hefðu talið á færi svo ungs manns væri sá gállinn á honum.

Jón bjó yfir leiftrandi kímnigáfu og sá að jafnaði ávallt spaugilegu hliðina á því þegar einhver misskilningur kom upp milli hans og yfirvalda, veitti þá fjölmiðlum fúslega viðtöl og sló þar á létta strengi en fleyg urðu meðal annars þau ummæli hans að öxi og hafnaboltakylfa væri staðalbúnaður á hverju íslensku heimili. Ég á að minnsta kosti öxi á mínu heimili, það er alla vega helmingurinn.

Fyrir andlát sitt hafði Jón tekist á hendur það mikla verkefni að snúa baki við fyrra líferni, farið í meðferð sem greinilega hafði skilað góðum árangri eins og sást á fjöldamörgum ummælum hans og stöðuuppfærslum á Facebook sem jafnan var unun að lesa því pilturinn var glettilega slyngur penni og orðfærið hnyttið. Stefnan var tekin út fyrir landsteinana í flugvirkjanám en sjaldan verður ósinn eins og uppsprettuna dreymir, orti einhver.

Við hittumst stuttlega í Íslandsheimsókn minni í nóvember og tókum okkur tíma til að rifja upp gamla daga. Mig óraði ekki fyrir að það spjall yrði okkar síðasta í þessum heimi en þannig er lífið og ég þakka fyrir þau 16 ár sem ég þekkti Jón Hilmar. Þar var sjaldnast lognmolla.

Ég bið fjölskyldu hans og unnustu allrar blessunar á ögurstundu.

Athugasemdir

athugasemdir