Játningar um Eurovision

eurovision76Ég horfi á Eurovision, það játast hér með. Svona með öðru auganu alla vega og að því gefnu að áfengi sé innan seilingar. Nú á þriðjudaginn horfði ég þó í fyrsta sinn á undankeppnina svo verulegar breytingar eru að verða á fjölmiðlaneyslu minni og er full ástæða til að hafa áhyggjur tel ég. (MYND: Bretarnir í Brotherhood of Man taka sigurlagið í Eurovision 3. apríl 1976 í Haag í Hollandi. Hefur eitthvað breyst?)

En fyrst ég horfi á þetta verð ég víst að hafa skoðanir á því. Dr. Gunni segir í ágætum Bakþönkum Fréttablaðsins í dag að hér á Tuðlandi sé ætlast til að maður hafi skoðun á þeim málum sem eru á dagskrá, annars sé maður kallaður bjáni.

Ég spyr þess vegna: Af hverju komust Tékkar ekki áfram?!? Þetta rugl sem þeir náðu að sjóða upp sem Eurovisionlag var fullkomin snilld. Nógu lélegt til að vera í Eurovision og nógu mikið rugl til að vera bráðskemmtilegt áhorfs. Annars er keppnin að snúast upp í rammpólitískt afl og verkfæri til kúgunar þjóða. Nú heyri ég það í fréttum að homminn sem keppir fyrir hönd Hollands muni draga sig út úr keppninni haldi Rússar því til streitu að banna göngu samkynhneigðra í Moskvu á laugardag. Við ættum þá að snúa vörn í sókn og hóta að hverfa þegar í stað heim hætti Bretar og Hollendingar ekki Icesave-tuðinu. Að sama skapi getur Úkraína hætt vegna gasdeilunnar við Rússa og þannig koll af kolli þangað til enginn keppandi verður eftir og evrópskar sjónvarpsstöðvar geta sparað sér þetta bruðl sem alltaf kemur út í feitum mínus í bókhaldinu.

Eins finnst mér grunsamlegt að Ísland komst áfram þrátt fyrir takmarkaðar vinsældir á alþjóðavettvangi um þessar mundir. Er samsærið ekki augljóst? Bretar, Hollendingar og Danir hafa bundist samtökum um að koma Íslendingum með öllum ráðum í 1. sætið á laugardaginn vitandi að landið fer endanlega á hausinn og sekkur sennilega í saltan sæ komi til þess að halda þurfi keppnina hér árið 2010.

Af hverju er Armenía með í Eurovision? Er farið að slaka á kröfunum um að keppendur komi frá Evrópulöndum? Einhvern veginn finnst mér Armenía vera í Asíu, þetta er smáfrímerki sem á landamæri að Íran, Aserbaídsjan og Georgíu. Þeir hljóta að minnsta kosti að vera á mörkunum. Og fyrst þeir eru með í Eurovision, af hverju senda þeir ekki System of a Down sem sinn fulltrúa? Þeir eru allir Armenar og myndu án efa gera fína hluti á sviðinu.

Þetta vekur fleiri spurningar, til dæmis um þjóðerni þátttakenda. Ljóst er að útlendingar geta keppt í Eurovision, sbr. Eiki Hauks fyrir Noreg á sínum tíma, en má það líka vera fólk frá löndum utan Evrópu? Nægir til dæmis að einn Íslendingur sé í hljómsveitinni til að hún geti keppt fyrir Íslands hönd? Gætum við ráðið kínversku dauðarokksfarandsveitina Chaozai, haft Jóhönnu Guðrúnu í bakröddunum og komist samt upp með að kalla það framlag Íslands?

Af hverju er ekki einni þjóð utan Evrópu boðið að vera með sem gestakeppanda ár hvert? Írakar kæmu sterkir inn eða Pakistanar. Þetta eru heitustu löndin. Spurningarnar eru endalausar…

Athugasemdir

athugasemdir