Jarðfræðingur finnur bin Laden

Það er Thomas Gillespie, prófessor í jarðfræði við Kaliforníuháskólann í Los Angeles, en hann hefur byggt reiknilíkan sem notað er til að kortleggja ferðir dýrategunda í útrýmingarhættu og beitir því hiklaust á feluhegðun al Qaeda-foringjans illræmda.

Þetta er kannski ekki alveg út í hött, bin Laden hlýtur að teljast í töluverðri útrýmingarhættu enda frekar umdeildur náungi. Gillespie heldur því fram að þetta sé í fyrsta sinn sem vísindalegri aðferð sé beitt við að hafa upp á bin Laden en njósnaaðferðir bandarískra yfirvalda hafa verið atkvæðameiri fram að þessu.

Prófessorinn hefur mikla trú á reiknilíkani sínu og gefur upp þrjá mögulega felustaði bin Ladens en vinninginn í líkindum hefur þorpið Parachinar í Norðvestur-Pakistan. Það er tiltölulega skammt frá þeim stað þar sem síðast er talið að sést hafi til bin Ladens auk þess sem það var algengur felustaður uppreisnarmanna í stríði Afgana og Sovétmanna. Það skyldi þó aldrei fara svo að lokum að hópur jarðfræðinga fletti ofan af al Qaeda?

Athugasemdir

athugasemdir