Jarðarbúar loks 6.886.561.319!

asgeiriiFyrirsögnin er auðvitað orðin úrelt rétt á meðan ég skrifa þessa fyrstu setningu en tilefnið er að Ásgeir Elíasson, minn ágæti vinur, ól af sér, með aðstoð konu sinnar, Jónu Dísar Þórisdóttur, sveinbarn klukkan 20:27 í dag að Greenwich-meðaltíma. Allar upplýsingar um merkur, lengd og önnur tæknileg atriði verða að bíða þar til formleg fréttatilkynning hefur litið dagsins ljós. Við Ásgeir kynntumst með látum haustið 1998 þegar við störfuðum við dyravörslu á nektarbarnum Vegas við Frakkastíg. Síðan hefur ómælt magn af brennivíni runnið til sjávar og höfum við gert okkar besta til að eldast bara en þroskast ekki og það með sæmilegum árangri. Þetta táknar að ég mun væntanlega sækja tvær skírnir um jólin. Ég verð kallaður Jóhannes skírari fari þessum ósköpum ekki að linna. Þó óska ég nýbökuðum foreldrum innilega til hamingju með að mjaka okkur nær sjö milljörðunum. (MYND: Við Ásgeir þefum af tappa í sögulegri heimsókn okkar Rósu til Reyðarfjarðar um hvítasunnuna í fyrra. Staðarbarinn Kaffi Kósý var meðal annars heimsóttur ásamt Shell-skálanum þar sem áfengi og hamborgurum var dælt í viðstadda eins og bensíni.)

Hér í Stafangri er farið að snjóa. Ekki mikið svo sem en nægir þó til þess að borgin tekur á sig hátíðlegan jólablæ nú þegar 69 ár eru liðin frá árás Japana á herskip Bandaríkjamanna við Pearl Harbour 7. desember 1941. Norðmenn eru álíka bilaðir og Íslendingar þegar kemur að öfgum í jólaskreytingum. Ég sé til hvort ég nenni á röltið með myndavélina en bar nokkur hérna niðri í bæ er sennilega að nota rafmagn á við lítið álver miðað við utanáliggjandi rafknúnar jólafígúrur af öllum stærðum og gerðum. Þetta er næsta hús við staðinn þar sem ég fékk mér lutefisk sbr. síðasta pistil.
bekkpressa
Ég hef endurnýjað kynni mín við síðuna Kraftaheimar sem Kári Elísson kraftlyftingamaður, einnig nefndur kötturinn eða Magister Cat, heldur úti að því er virðist einn síns liðs. Að minnsta kosti má greina pennamark hans á hverjum stafkrók þarna en kötturinn er glettilegur penni og farnast vel að rita um kraftlyftingar enda mikill andi í textanum. Ég var reglulegur lesandi annarrar síðu hans, sem var eyrnamerkt svitaholunni SteveGym við Hlemm, fyrir nokkrum árum og hef haft mikið gaman af að snúa aftur. Það skemmir ekkert að hafa áhuga á þessu sporti og rífa reglulega í lóðin en flestir ættu að geta glott út í annað eða bæði yfir sögum af tilurð viðurnefna auk gamalla hetjusagna af Jóni Páli heitnum, Bubba Morthens og fjölda annarra sem sett hafa svip á stálið. atlisteinn.is mælir með.

Athugasemdir

athugasemdir