Við fórum í eftirminnilega siglingu um síkin í Amsterdam seinna laugardagskvöldið okkar þar með þessu fyrirtæki. Þetta var svona rómantísk sigling, þó fullur bátur af fólki en stílað inn á pör. Óhætt er að segja að vel sé að þessum ferðum staðið og verðinu er verulega still í hóf. Fyrir 50 evrur á haus fæst tveggja tíma sigling með hressilegri leiðsögn á fimm tungumálum, ÓTAKMARKAÐ ÁFENGI ásamt kexi og hinum mjög svo ljúffengu ostum sem Holland er frægt fyrir. Kertaljós eru á öllum borðum og stemmningin fín. Byrjað er með þrjár flöskur á borðinu, hvítvín, rauðvín og rósavín, og svo er bara beðið um meira. Við ein náðum því reyndar í 30 manna hópi. Til hvers er fólk að fara í frí?!? (MYND: Skipstjórinn veifar kroppinu, Nói & Siríus fá feitan reikning frá mér fyrir markaðssetninguna.)
Kynnirinn hét Bart og lék á als oddi. Hann slapp með fjögur tungumál að þessu sinni þar sem belgíska parið samþykkti að skilja hollensku kynninguna. Við féllum náttúrulega undir ensku þuluna. Ég hef aldrei farið í siglingu um síki borgarinnar og verð að játa að hún lítur allt öðruvísi út af skipsfjöl. Mæli hiklaust með þessu, sérstaklega undir sólsetur en við ýttum úr vör klukkan 21 sem var alveg passlegt. (MYND: Byrjunarpakkinn, kex, ostar og vín.)
Skipstjórinn var ekki síður hress en Bart kynnir og þar sem við sátum á fremsta borði tókst með okkur nokkurt spjall sem þróaðist út í að við gáfum honum lítinn pakka af Nóa kroppi sem Rósa var með í veskinu og var hluti úrvals af íslensku nammi sem við keyptum til að leyfa vinnufélögunum hér í Stavanger að prófa. Þegar upp var staðið skilaði ekkert af því sér til Noregs nema pakki af einhverjum fjallagrasahálstöflum sem ég skil nú ekki af hverju við keyptum. (MYND: Bart kynnir að missa sig í ferskleikanum.)
Nema hvað að kapteinninn kolféll svona líka fyrir Nóa kroppinu og nánast grét af unaði á meðan hann spændi í sig pakkann. Fór hann svo að spyrja okkur heilmikið út í Ísland, hrunið og jafnvel Icesave (það er nú reyndar efni í sérpistil hvernig það er að vera Íslendingur í Hollandi eftir Icesave – þar hefur orðið dálítil breyting). Urðu miklar samræður úr þessu öllu saman enda var hann margoft nánast búinn að sigla á veggi og alls konar drasl þar sem við sátum hálfpartinn fyrir aftan hann. Allir lifðu þó.
Ég gladdist mjög þegar við sigldum fram hjá húsi Önnu Frank. Ég var búinn að lofa mér því að ná loksins í þessari lengstu dvöl minni í Amsterdam að gera þrennt menningarlegt fyrir utan vínsmökkun: Heimsækja hús Önnu Frank, Rijksmuseum og hið annálaða Van Gogh-safn. Auðvitað gerði ég ekkert af þessu og fannst því fínt að sigla að minnsta kosti fram hjá því fyrsttalda og geta sagt frá því. Ég varð nú fyrir dálitlum vonbrigðum, bjó Anna Frank í blokk?? Reyndar var sólin sest þarna og skyggnið ekki hundrað prósent. Ég fer þangað næst! (MYND: Siglt um eina mögnuðustu borg Evrópu. Takið eftir fljótandi húsunum, þetta eru heimili fólks…þó varla fasteignir samkvæmt skilgreiningu.)
En þetta var altént frábær sigling og hverrar evru virði. Þeir hafa nú ekki grætt mikið á mér með þessu fína léttvínsfyrirkomulagi, ég nánast valt út úr dallinum þegar hann lagðist að bryggju. Hvað sem ölvun leið kvöddum við þá félaga, Bart og skipstjórann, með virktum og lugum engu þegar við sögðumst hafa skemmt okkur konunglega. Ekki veitir af tveimur siglingum í næstu heimsókn, byggingarstíll borgarinnar nýtur sín að mörgu leyti betur frá þessu sjónarhorni. Lagt var að okkur að koma aftur með meira Nóa kropp.