Íslenskt brennivín slær í gegn

innfliInnflutningsteitin  á laugardaginn gekk eins og í sögu og hefur drykkjan sennilega nálgast meðalrennsli lítillar jökulár þegar hún stóð sem hæst. Norsku gestirnir okkar tóku íslensku brennivíni til dæmis ákaflega fagnandi og sulgu það eins og enginn væri morgundagurinn enda hafa þeir sennilega ekki átt sér neitt líf þann dag. Hjörtur og Viktor komu færandi hendi með rammíslenskan hákarl frá Bjarnarhöfn á Snæfellsnesi og gæddu flestir nema ég sér á honum. Ég hef einu sinni smakkað hákarl og það dugir mér fyrir lífstíð (gamlárskvöld 1992 og það var Hólmsteinn Gauti Sigurðsson sem fór langt með að eyðileggja þau áramót fyrir mér með því að byrla mér þennan óbjóð). (MYND: Hinn norski Einar Bauer hafði aldrei bergt á öðrum eins ódáinsmiði og íslensku brennivíni. Maður er auðvitað stoltur.)
innflii
Einn gestur náði þeim árangri að láta bera sig út sem lofar mjög góðu miðað við fyrsta partý okkar hér í húsinu. Engar kærur hafa borist og nágrannarnir heilsa okkur enn þá svo sennilega hefur þetta farið prúðmannlega fram. Ég man það reyndar ekki en mér hefur þó verið sagt að dyraverðir á einhverjum skemmtistað hafi neitað að hleypa mér inn á staðinn á þeirri hæpnu forsendu að ég var berfættur í inniskónum mínum. Aldrei má maður ekki neitt! Ég hef hins vegar greinilega átt meira láni að fagna á uppáhaldsbarnum mínum, rónaknæpunni Korvetten, þar sem ég endaði bardagann á laugardagskvöldið. Í gær tylltum við okkur þangað inn í eitt rauðvínsglas á meðan við biðum eftir strætó og þá er kallað hátt og snjallt: ‘Atli!’ Þar var þá á ferð barþjónninn frá kvöldinu áður. Þá sagði Rósa: ‘Guð minn góður, þú ert orðinn fastakúnni hérna!’ en hún hefur af einhverjum ástæðum megnan ímugust á Korvetten. Ég ítreka hins vegar það sem ég hef áður ritað hér…viljirðu kynnast þjóð, kynnstu rónum hennar! (MYND: ‘…og hann vó svo skjótt með sverði að þrjú þóttu á lofti að sjá,’ var skrifað um Gunnar Hámundarson á Hlíðarenda. Einar drekkur hins vegar svo skjótt að allt að sex staup þykja á lofti að sjá.)

innfliiiNú er allt orðið vitlaust í yfirvinnu hjá Nortura. Ég var að vinna á laugardaginn og rétt náði heim fyrir partý og svo var tekið á því frá sjö til sjö í dag. Ég var á söginni yfirvinnuhluta dagsins, sem hefst klukkan þrjú, og ég lýg því ekki að ég bútaði niður hátt í hálft tonn af lambaframpörtum með aðeins einni klósettferð og stuttu kaffihléi. Þetta er lærdómsríkt, áður en frampartur er borinn að sagarblaðinu þarf að handskera burtu svitakirtla dýrsins sem leynast við hálsræturnar. Þetta er brúnleitt og glansandi fyrirbæri en gjörsamlega ótækt til manneldis. Næst er bandsögin látin ganga þvert á rifbeinin og partinum skipt í tvennt. (MYND: Heiðurshjónin Elías og Elísa létu sig auðvitað ekki vanta og lýstu upp teitina með speki og mannviti fornu.)

Þetta gerist algjörlega áreynslulaust enda bandsögin svakalegt verkfæri sem brytjar niður kúluliði eins og að drekka vatn. Þeir sem eru búnir að vinna þarna lengur en í mánuð mæla reynslu sína í því hve marga fingur þeir hafa misst í sögina. Ingebjørg vinkona mín á metið þar en hún er langt frá því að vera með ‘fulle femm’ á báðum og er byrjuð á tánum. Af öðrum víkingum Nortura má nefna Peter hinn pólska. Þegar klukkutími var eftir af vinnunni á laugardaginn leit Peter djúpt í augun á mér og sagði á sinni bjöguðu pólskuskotnu norsku: ‘En time…vodka!’

Athugasemdir

athugasemdir