Íslendingabók í loftið – draumurinn rættist

slendingabkFacebook-samfélagið Íslendingar í Noregi fær dag hvern fjölda fyrirspurna inn á borð til sín varðandi allt mögulegt í sambandi við flutninga til Noregs. Hvernig ber að haga atvinnuleit, hvað með leiguhúsnæði, skatta, innflutning bíla, gæludýra og búslóða? Síðan er lokuð en við hleypum öllum inn sem um það biðja og erum fljótlega að detta í 3.000 þarna.

Allir gera sitt til að greiða úr vandamálum annarra, deila eigin reynslu og segja ýmsar sögur af því hvernig þeim gekk að flytja inn hundinn sinn, fá norskt ökuskírteini eða losna við sölumenn Verdens Gang. Fjörugar umræður spinnast gjarnan og margir þekkjast orðið ágætlega þrátt fyrir að hafa aldrei hist en hópurinn býr um allan Noreg eins og gefur að skilja.

Eðlilega skjóta sömu spurningar upp kollinum aftur og aftur frá nýjum gestum síðunnar og um nokkurra mánaða skeið hefur annað slagið kviknað umræða um einhvers konar vettvang með tilbúnum svörum við þessum algengustu spurningum. Þar kviknaði hugmyndin að vefsíðunni Íslendingabók hinni norsku sem fimm víkingar tóku að sér að ritstýra og koma á koppinn. Ákveðið var að fara í loftið 1. desember og eftir vægast sagt þokkalega törn síðustu daga opnaði vefurinn formlega núna rétt fyrir miðnætti að norskum tíma. Áætlunin stóðst.

Við Ingvar Örn Ingólfsson ritstýrum síðunni, sem verður með tímanum viðameiri en hún er nú, en aðrir aðstandendur og höfundar efnis eru Bjarni H. Valsson, Ingimundur K. Guðmundsson og Kristján Eyfjörð Hilmarsson. Við búum í Sandnes, Kristiansand, Bergen, Sandefjord og Solvorn og höfum aldrei hist þótt við höfum í sameiningu sveist blóðinu við að koma verkefninu af okkur innan tímamarka.

Ég þakka þessum góðu félögum kærlega samvinnuna síðustu daga og öllum á Íslendingar í Noregi hvatningu og góð orð í okkar garð. Án ykkar hefðum við aldrei nennt þessu, trúið mér!

Athugasemdir

athugasemdir