Íslandsannállinn

medalneyslaNýafstaðin Íslandsför var skýr og hispurslaus ögrun við öll almenn neysluviðmið sem þekkjast í hinum vestræna heimi. Þetta var svo sem vitað fyrir fram. Frá því að við settumst við arineldinn á Argentínu með tvöfaldan gin og tónik klukkan 19 að kvöldi 20. desember og þar til ég át skinkuhorn og Prince Polo um borð í flugvélinni í gær – og fyllti þar án efa tuttugasta kílóið af veislumat, skyndibita og konfekti – liðu fimmtán dagar í skýrum og einbeittum át- og drykkjuvilja. Önnur eins kynstur rauðvíns, gins og koníaks og þau sem vinnulúin lifur mín mátti umbreyta þetta tímabil hefur sennilega náð að hnika til einum aukastaf í heildarsölutölum Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins í desember. Það er ánægjulegt að leggja sitt litla lóð á vogarskálar févana ríkissjóðs. (MYND: Tölfræði sem varð úrelt á einum jólum.)

Þrátt fyrir svakalegar yfirlýsingar í garð KFC náði ég að stilla mig um að borða þar þangað til að kvöldi 2. janúar sem verður að teljast merkilegt. Það kvöld var líka staðið við stóru orðin og útibúið í Lindahverfinu valið eða hvað sem þetta heitir þarna við hliðina á Smáralindinni. Auðvitað missti ég mig alveg við afgreiðsluborðið og endaði á að kveðja staðinn klyfjaður hundapokum (e. doggy bag) með leifum sem entust mér í snarl milli annarrar óhollustu allt þar til leigubíllinn kom að ferja okkur út á völl í gær. Hvað sem segja má um klikkaða ríkisstjórn og heimsmet í hækkunum allra gjalda þá eiga Íslendingar alltaf KFC. Það er því miður meira en félagar mínir Norðmenn geta státað af.

Frá upphafi vega var það borin von að okkur tækist að hitta allan þann mannskap sem lagt var upp með. Það tókst enda engan veginn. Hins vegar rákumst við óvænt á fjölda manns eins og búast mátti við, langflesta í World Class, Kringlunni og á ýmsum börum í og við miðbæ Reykjavíkur. Þá á ég að sjálfsögðu við fólk sem við þekkjum en ekki bara einhverja. Mér er það bæði ljúft og skylt að gera þá játningu að mér bauð ekki í grun hve margir þeirra, sem ég rakst á út og suður á förnum vegi, lesa ruglið í mér hérna og þakka ég hinum sömu jákvæðar og uppbyggilegar athugasemdir sem að sjálfsögðu verða mér hvatning til að bulla meira og vonandi oftar á árinu sem er að hefjast. Flest var þetta meira að segja nokkuð eðlilegt fólk hvort sem lesendur trúa eður ei.
armaniac
Jólin eru náttúrulega alltaf sígild. Eins áttum við frábæran sólarhring uppi í bústað í Svínadal hjá pabba og frú. Ómetanlegt að komast steinsnar út fyrir stórborgina og skynja íslenska náttúru í kyrrð sinni og friði. Hin íslensku áramót voru svo að lokum ógleymanleg upplifun. Mér finnst áramótin alltaf einstaklega hátíðleg stund, þetta eru svo mikil tímamót einhvern veginn; fréttaannállinn, Jóhanna greinilega búin að fara á framsögunámskeið fyrir ávarpið sitt og allt annað að heyra í henni þótt ég hafi kannski ekki verið efnislega sammála einu einasta orði. Eins átti minn gamli skólabróðir, Gunnar Björn Guðmundsson, stórleik með skaupið annað árið í röð en ég man síðast eftir tveimur góðum skaupum í röð 1985 og 1986 svo þetta er afrek. Ég er rífandi montinn af að hafa gert stuttmynd með Gunna í FG vorið 1992. Merkilegt að hann sé enn undir áhrifum frá samstarfi okkar. (MYND: Við feðgar í bústaðnum. Flaskan er árgangur 1939 af armagnac sem við gáfum pabba í sjötugsafmælisgjöf í hitteðfyrra og er vínið jafngamalt (eða -ungt) honum. Innan við hundrað slíkar flöskur eru taldar til í heiminum og þetta kvöld var innsiglið rofið og heimsbirgðunum fækkað um eina. Eldri vökva hef ég ekki neytt…og sem betur fer ekki eldri matar heldur.)

Einar Presley vinur okkar bauð okkur í teiti heim til sín í Hafnarfjörðinn eftir miðnætti og sulgum við þar brennivín lengi nætur. Ég hef einu sinni á ævinni verið utan Íslands á gamlárskvöld og það er sennilega það kvöld sem ég myndi síst vilja verja annars staðar. Eins hugsar greinilega sístækkandi hópur útlendinga en ég er nokkuð viss um að við vorum einu Íslendingarnir á Hótel Leifi Eiríkssyni um áramótin. Í herberginu við hliðina á okkur var kona frá Manhattan sem var við það að missa þvag af spenningi yfir að upplifa þessi ‘legendary’ íslensku áramót sem amerískir miðlar virðast mjög iðnir við að dásama, sbr. til dæmis nýlegt val CNN Travel á Reykjavík sem borginni til að dvelja í yfir jólin.

Öllum látum áramótanna fylgir svo hin heillandi kyrrð nýársdags sem alltaf minnir mig á ljóðlínur séra Matthíasar Jochumssonar,

Hvað boðar nýjárs [sic] blessuð sól?
Hún boðar náttúrunnar jól,
[…]

Eins verður mér alltaf hugsað til New Year’s Day með U2 en sú tenging er öðruvísi.

Gleðilegt ár, Íslendingar nær og fjær.

Athugasemdir

athugasemdir