Lokið er mikilli helför til lands elds og ísa sem um leið var alveg nauðsynleg þar sem við komum ekki aftur til landsins fyrr en í júlí 2013. Hápunkturinn í samgönguhluta ferðarinnar var að ég lenti óvænt á Saga Class í Herðubreið Icelandair á leið minni frá Kastrup-flugvelli til Keflavíkur en sú flugleið var farin að þessu sinni. Ómögulegt að fljúga alltaf gegnum Gardermoen sem er sennilega leiðinlegasti flugvöllur heims. (MYND: Áhöfnin í Herðubreið kallar ekki allt ömmu sína. Freyjurnar steyta hornin að lokinni hrikalegri flugferð með einn þyrstasta mann landsins á Saga Class. Myndin er aðeins hreyfð, það er þeim að kenna.)
Þessu fylgdi auðvitað frítt brennivín sem hún Þórheiður flugfreyja bar í mig af fádæma skörungsskap þar til útlimir hennar voru bólgnir og blóðugir og ég sennilega búinn með megnið af Reyka-vodkabirgðum flugfarsins. Ég notaði líka tækifærið og skellti í mig einni dós af Egils appelsíni sem var náttúrulega hreinn unaður.
Sjálf dvölin á Íslandi var ekkert nema sukk og svínarí, hroðalegar átveislur og ógleymanlegt jólahlaðborð á Argentínu steikhúsi á laugardagskvöldið þar sem Peter Lehmann Mentor, eitt besta rauðvín sem fengist getur, var þambað sem enginn væri morgundagurinn. Eftir frábæra máltíð héldum við í teiti til Borghildar Hauksdóttur þar sem saman var kominn rjóminn af því fólki sem okkur langaði einmitt að hitta í þessari Íslandsheimsókn og fá allir hlutaðeigandi kærar þakkir fyrir að taka sér tíma til að hittast yfir glösum og rifja upp gamlar minningar sem eru að verða svo umfangsmiklar að það er full vinna að fara yfir þær. Guðbjartur Þór Kristjánsson leigubifreiðarstjóri og gamall vinur fær bestu þakkir fyrir að koma okkur út í Leifsstöð á elleftu stundu í morgun en eins og ég spáði hér í pistli um daginn var farið beint úr hörðum gleðskap út á völl.
Ýmislegt hefur breyst á Íslandi síðan við vorum þar síðast og ber þar fyrst að nefna brjálæðislegt verðlag á ýmsum varningi en mér finnst nú orðið nokkuð gróft að greiða 500 kall fyrir einn bolla af kaffi latte hjá Kaffitári í Kringlunni. Þetta er hreinlega farið að slaga upp í norskt verðlag og maður má þakka fyrir veika stöðu íslensku krónunnar. Ég hefði ekki boðið í það að vera á íslenskum launum í þessari heimsókn, svo mikið er víst.
Einn hápunktur ferðalagsins var svo auðvitað strandhögg á KFC í Faxafeni í hádeginu á föstudag þar sem ég jók kólesterólmagn líkama míns um nokkur hundruð prósent en ég var líka búinn að vera í hörðu meinlætalífi hérna vikurnar á undan, lyftingum, karate, kreatíni, mysupróteini og hreinu kolvetni frá Nordic Power og dett núna beint inn í þann pakka aftur eftir allt sukkið. Ekki veitir af að reyna að takmarka það tjón sem verður óhjákvæmilega um jólin í öllu því áti. Ég byrja 2013 klárlega svínfeitur. (MYND: Tekið á veigunum á KFC, Helgi í Góu, þú hefur breytt lífi mínu!)
Gleðitár glitra sem sagt á hvörmum mínum eftir vel heppnaða Íslandsheimsókn og við hlökkum mikið til að mæta á svæðið í júlí á næsta ári að loknu námi í bore- og brønnteknikk og bunka af öðrum atvinnutengdum námskeiðum.