In vino veritas…

fyrsti sopinn 2012Að loknum vinnudegi í dag lauk einnig hinu stranga bindindi sem einkennt hefur líf mitt allt frá áramótum eða síðastliðna þrjá mánuði. Á sama tíma hófst fyrsta fríhelgi ársins og til að bæta gráu ofan á svart varð ég 38 ára gamall klukkan 15:33 að íslenskum tíma. Árlegt myndskeið af fyrsta sopanum má nálgast hérna.

Liðin eru fimm ár síðan ég átti síðast afmæli á almennum drykkjudegi en það var föstudaginn 30. mars 2007. Þá var ég á leið í 1. dan-gráðun í karate daginn eftir og naut afmælisins takmarkað vegna kvíða. Árið eftir var svo auðvitað hlaupár svo afmælisdagurinn hoppaði yfir á sunnudag. Mér finnst sérstaklega leiðinlegt þegar ég missi af því að eiga afmæli á laugardegi þar sem ég fæddist einmitt á laugardegi. Svona er þetta.

Núna er hins vegar allt í eðlilegum farvegi og ég er búinn að fá mér nokkur glös af því besta gini er fengist getur, Bombay. Klukkan 20:00 að staðartíma eigum við svo pantað borð á Big Horn Steak House hérna í miðbænum og svo endar þetta ábyggilega í einhverri ógæfu. Það eina sem vantar er sól en Rogalands Avis lofar henni á morgun.

Fyrirspurnum rignir um hvernig íbúðamál fóru. Þau fóru ákaflega vel. Við tókum íbúðina í Hana eftir stutta skoðun og erum í skýjunum með hana bókstaflega. Fín stærð, fínt geymslupláss, göngufæri í alla þjónustu, líkamsræktarstöðina City Gym og næsta bar auk þess sem ein af perlum Sandnes, göngugatan Langgata, sem er víst lengsta göngugata Noregs, er skammt undan eins og miðbærinn allur. Af þessu öllu koma myndir þegar fram líða stundir, þó sennilega ekki fyrr en í maí. Leigusalinn er 72 ára gamall atvinnurekandi sem vill endilega krækja í leigjendur til lengri tíma og setur það eina skilyrði að við séum norræn (hann heyrði í símtalinu að ég væri klárlega ekki innfæddur Norðmaður en taldi uppruna minn ekki of langt undan). Flutningur 1. maí og búseta í Sandnes hefst þar með eftir tvö ár í Stavanger.

Ekki gleyma hinum afmælisbörnum dagsins, Eric Clapton, Tracy Chapman og Vincent van Gogh. Maður er ekki einn í þessum heimi.

Athugasemdir

athugasemdir