Það þarf engan vísindamann til að slá því föstu hverjir eru ekki vinsælustu nágrannarnir í botnlanganum þessa dagana. Klukkan 08:44 í morgun birtist hér heljarmikil gámaflutningabifreið frá Eimskipafjelagi Íslands (eins og það hét í upphafi) og smellti fagurbláum 40 feta búslóðagámi út á miðja götu. Umferð kemst með naumindum fram hjá. Flikkið mun prýða umhverfið fram á þriðjudagsmorgun en heldur þá til hafnar eins og Egill Skallagrímsson forðum. Veraldlegar eigur okkar hefja svo för sína með Dettifossi til Fredrikstad á fimmtudag og við ríkjum hér yfir galtómu húsi líkt og Jóhann landlausi Englandskonungur í heila viku þar til við tökum flugið.
Á morgun, laugardaginn 1. maí, verður haldin kveðjuteiti hér á heimilinu og eru allir velkomnir sem við höfum einhvern tímann talað við um ævina. Gestir verði þó búnir undir tiltölulega hrátt umhverfi, stafla af pappakössum og nakta veggi. Í fyrsta sinn í minni veislusögu brydda ég upp á þeirri nýbreytni að bjóða upp á sérstakan dauðagám að hætti útihátíða. Nóg ætti plássið að vera.
Ég tel mig vera búinn að senda öllum í símaskránni minni SMS og Rósa hefur klínt þessu um allt á Facebook. Tilkynningin hér telst vera opinber innköllun (proclama) til drykkjumanna og er vanlýsing af þeirra hálfu alfarið á (þeirra) eigin ábyrgð. Húsið opnar klukkan 19:00 að aflokinni drykkju skyldmenna sem stendur frá klukkan 16:00.