‘I gave him the wrong finger!’

moving logoMan einhver eftir kvikmyndinni Moving með Richard Pryor frá 1988 (hér er stiklan)? Mér líður svona núna. Þegar ég sá Moving í annaðhvort Regnboganum eða Bíóhöllinni í Álfabakka rétt um fermingu fannst mér hún nokkuð brosleg auk þess sem þetta var í fyrsta sinn að mínu viti sem Saab 900 Turbo var notaður í bandarískri bíómynd, alsænsk bifreið á þeim tíma.

Núna fæ ég bara hroll þegar ég horfi á þetta. Nú stend ég í þessu og þetta er jafnleiðinlegt og síðast og þar á undan. Hvað á ég að gera við 160 fiskrétti eftir Helgu Sigurðar eða danska hannyrðameistaraverkið Jeg broderer selv? Núna þarf ég að skipta bókasafninu mínu og annarri búslóð niður í geymslu eða ekki geymslu og ekki nóg með það, ég þarf sjálfur að grafa fyrir breiðbandstengingu inn í húsið! Hafa lesendur lent í þessu? Þjónustufulltrúi frá Lyse hringdi í mig og tilkynnti mér það blákalt að jú jú, þeir myndu að sjálfsögðu senda mann en hann myndi ekki gera annað en merkja með einhverju spreyi hvar ég ætti svo sjálfur að grafa 30 sentimetra djúpa holu þar sem línan færi inn í húsið. Svo koma þeir og tengja og rukka mig um 1.400 krónur (norskar) og málið er dautt. Hljómar þetta eins og falin myndavél? Nei, þetta er Noregur árið 2012.

Þetta gæti orðið síðasti pistillinn hér þar til við fáum nettengingu í Sandnes. Það ætti að taka um tvö ár miðað við aðrar tengingar hér og sennilega þarf ég að grafa fyrir henni sjálfur. Ég verð áfram með nothæfan tölvupóst þangað til síðdegis á föstudag en gemsinn hangir sennilega allan tímann…nema ég þurfi að grafa fyrir honum líka.

Við sjáumst í Sandnes, vonandi nálægt 1. maí.

Athugasemdir

athugasemdir