Hvernig skipar maður ríkisstjórn í Noregi? – reglurnar

erling norvikMyndin hérna hægra megin er sennilega ein sú alræmdasta úr stjórnmálasögu Noregs. Hún sýnir Erling Norvik Høyre-leiðtoga í vel stemmdri sigurvímu daginn eftir nauman kosningasigur í stórþingskosningunum 12. september 1977. Þessi mynd, sem birtist á forsíðu Aftenposten, varð síðar fleyg fyrir þá kaldhæðni er örlögin skópu henni en seinna þennan örlagaríka dag fannst eitt umslag með 50 atkvæðaseðlum sem farið hafði á flakk í Nordland-fylki. Kom þá í ljós að Jafnaðarflokkur vinstrimanna (Sosialistisk Venstreparti, SV) hirti baráttusætið í Nordland, og þar með Noregi öllum, með naumindum af Elsu Kobberstad, þingmanni Høyre, og féll sætið rétt tæplega undir rass Hönnu Kvanmo frá SV-flokknum sem taldist fyrir vikið nánast sigurvegari kosninganna þetta haustið með tvö þingsæti utan af landi. (MYND: Aftenposten, 1977.)

Norska viðskiptadagblaðið Dagens Næringsliv birtir í nýliðnu helgarblaði sínu frábæra samantekt á sætum og súrum augnablikum í sögu Høyre-flokksins sem margir búast sterklega við að skáki sjálfum Verkamannaflokki Jens Stoltenberg 9. september næstkomandi í kosningum sem jaðra við að verða jafnspennandi og þingkosningarnar á Íslandi 27. apríl. Spyrjum að þeim hrikalegu leikslokum en margir Norðmenn eru teknir að geispa yfir eilífum bönnum og forræðishyggju Stoltenbergs sem meðal annars hefur svarið þess dýran eið að ekki verði leitað að olíu við Lofoten á meðan hann situr í ríkisstjórn – jafnvel þótt tilraunaboranir hafi með nýjustu tækni nánast engin áhrif á umhverfið og fiskistofna.

Gudmund Hernes, rithöfundur, prófessor í félagsfræði við Háskólann í Bergen og menntamálaráðherra í stjórn Verkamannaflokks Gro Harlem Brundtland á sínum tíma, er í skemmtilegu viðtali í úttekt Dagens Næringsliv og teflir þar fram hinum raunverulegu leikreglum við að stilla upp norskri ríkisstjórn (n. legge regjeringskabal) og er athyglisvert að skoða þær með hliðsjón af nýlegri stjórnarmyndun á Íslandi. Þær eru eftirfarandi í þýðingu minni og athugasemdir í hornklofum og svigum eru einnig mínar:

o Leggja verður allan kapalinn í einni lotu, venjulega eftir kosningar.

o Bannað er að ræða um kapalinn fyrir kosningar, þótt hann sé byrjaður [rule number one, you don´t talk about fight club!].

o Þó má leka einstökum spilum út til fjölmiðla fyrir kosningar svo lengi sem lekandinn neitar því sjálfur að hafa gert það.

o Blekkingar eru leyfilegar á meðan kapallinn er lagður.

o Þeim sem leggur kapalinn er leyfilegt að eiga sér leynilega hjálparmenn (n. medspillere).

o Ekki er leyfilegt að smjaðra við kapalstjóra (n. kaballegger og sérstaklega vísað til Ernu Solberg, núverandi leiðtoga Høyre).

o Einstökum spilum í kaplinum er óheimilt að viðurkenna að þau séu í spilastokknum.

o Einn Þrándheimsbúi, einn Björgvinjarbúi og einn Norðlendingur hið minnsta þurfa að vera hluti af kaplinum.

o Það er stór kostur ef kvenkyns öryrki úr röðum sama er á blaði [þ.e. samíska kynstofnsins, ekki að viðkomandi sé alveg sama].

o Nota má jóker en hann getur hvort tveggja verið tromp eða svartipétur.

o Þann jóker einn sem telst tromp má þó hafa í sjálfum ríkisstjórnarkaplinum.

o Gudmund Hernes er undantekningin frá síðustu reglu.

o Innflytjendur, ungar konur og samar eru tromp.

o Þeir sem ekki koma frá Ósló eru sterk spil á hendi.

o Sé einu spili hent í miðjum kapli verður að hefja kapalinn að nýju.

o Allir ríkisstjórnarkaplar eiga sér eigin reglur sem eru síbreytilegar.

Athugasemdir

athugasemdir