Húsnæðismálin komin á beint

overlegeFrá og með föstudeginum 16. júlí er fengin lausn á helsta áhyggjuefni okkar sem er framtíðarhúsnæðið. Ég minntist á það í pistli 10. júlí að við værum á leið í annað sinn að skoða raðhús við Overlege Cappelensgate sem er svo gott sem í miðbænum og við hlið núverandi vinnustaðar okkar. Eftir þessa síðari skoðun gerðum við tilboð í leigu á því húsi á fimmtudaginn og létum það gilda í sólarhring. Við buðum 13.000 krónur á mánuði í stað 14.000 gegn því að við skuldbyndum okkur (já, byndum er með y í viðtengingarhætti) til að leigja í minnst þrjú ár. Húsið er 120 fermetrar, kjallari og tvær hæðir, svalir og garður og…loksins, gluggalaus 6,90 metra langur veggur fyrir bókaskápinn minn!!! Svoleiðis lúxus er sko ekki á hverju strái hérna í borginni þar sem gluggamanían er slík að maður spyr sig hvers vegna fólk fái sér ekki bara gróðurhús til að búa í. (MYND: Hluti af stofunni á Overlege Cappelensgate, við vorum löt við að taka myndir þegar við fórum að skoða en ég lofa fleiri við fyrstu hentugleika.)

Og viti menn, á föstudagsmorguninn kemur símtal frá Eiendomsmegleren, sem er helsta leigumiðlunin á svæðinu, og mér er tjáð að gengið hafi verið að tilboði okkar undanbragðalaust. Samningsundirritun á þriðjudaginn klukkan 15 og afhending húsnæðis sunnudaginn 15. ágúst.

Þetta eru ekkert leiðinlegustu tíðindi sem ég hef fengið um dagana. Einn mánuður eftir af svitastorknum 21 kílómetra hjólreiðum á dag til og frá vinnu og eftir það get ég gengið út um dyrnar heima hjá mér, yfir eina götu og ég er mættur í vinnuna. Örlítill munur. Reyndar mun ég bara eiga eftir tæplega tveggja mánaða starf á sjúkrahúsinu þegar ég flyt en þetta verður samt frábært. Þá er ekki nema nokkurra mínútna gangur niður í miðbæ frá nýja staðnum og húsið þar að auki mjög skemmtilegt, gengið út á svalir beint úr svefnherberginu og þær þannig úr garði gerðar að sól skín á þær frá morgni til kvölds (þegar hún skín á annað borð auðvitað). Í kjallaranum eru þvottavél og frystikista sem fylgja með í leigunni auk þess sem þar eru kjöraðstæður til að brugga rauðvín og hvítvín en fyrsta lögn verður sett í gang með viðhöfn strax eftir flutning og lýkur þar með rauðvínskaupum í Vinmonopolet þar sem ódýrasta beljan kostar 289 krónur (5.780 ISK).

En fátt er svo frábært að ekki fylgi einhver hryllingur og nú bíður okkar auðvitað það hroðalega verkefni að flytja margra tonna búslóð okkar úr geymslunni niðri á Hillevågsveien og á nýja staðinn. Þetta verður mikill djöfulskapur og ekki verður skárra að raða öllu á rétta staði, setja upp hillur, ljós og bókaskápa og svo framvegis. Til að kóróna þetta tók ég á mig þrjár vinnuhelgar í röð á spítalanum einmitt rétt eftir að við erum flutt (það er ekki hægt að hafna því fyrir 6.000 kall á tímann!) svo það verður ekkert kvartað yfir verkefnaskorti síðari hluta ágústmánaðar. Á sama tíma byrjum við einmitt að æfa tae kwon-do hjá Stavanger NTN tae kwon-do klubb svo maður ætti ekki að fitna rétt á meðan.

Reyndar hefur spikið runnið af mér eftir að við fórum að hjóla í vinnuna og nú hefur gengið svo á björgunarhringinn að nánast aðeins bak- og síðuspik eru eftir en ekki má vanmeta spik á því svæði sem fer allra síðast en kemur langfyrst.

Ég er kominn með vinnu hjá öryggisgæslufyrirtækinu PSS og voru samningar undirritaðir í síðustu viku. Þetta verður aukavinna samhliða ræstingunum til að byrja með en gæti orðið að fullu starfi eftir það. Laun fyrir fullt starf þar eru kringum 34.000 norskar sem eru tæplega 700.000 íslenskar krónur á núverandi gengi. Ekki hafði maður nú svo ríflegt kaup við öryggisgæslu á Íslandi hjá Securitas hérna í gamla daga. En það er bannað að þýða yfir í íslenskar krónur eins og gengið er. Frábærast af öllu er að nýbúar eins og við borgum bara 20 prósent tekjuskatt fyrstu tvö árin í Noregi og eins og ég skrifaði um daginn greiða allir norskir skattgreiðendur hálfan skatt í desember til að örva jólaverslunina. Það líður ekki sá dagurinn að ég sjái ekki betur hve heimskulega Íslandi er stjórnað.
gsk
Talandi um Securitas er ég að fara í atvinnuviðtal hjá þeim núna um miðjan ágúst. Þar vantar bunka af fólki frá haustinu og glimrandi meðmæli frá Securitas á Íslandi opnuðu mér tafarlaust dyr að viðtali. Á næsta ári er svo stefnan tekin á fyrstu námskeið fyrir störf á olíuborpöllum en þar ber hæst GSK sikkerhetskurs sem er grunnöryggisnámskeiðið fyrir alla starfsmenn á norskum borpöllum og gengur meðal annars út á að kunna að bjarga sér út úr þyrlu sem fyrir einhverja slysni hefur lent á hvolfi í sjónum. Ég get ekki beðið eftir að prófa það!!! (MYND: Eldskírnin á GSK-námskeiðinu, komdu þér út úr þyrlu á kafi. Og þú borgar fyrir þetta!)

Athugasemdir

athugasemdir