Hnípin þjóð í vanda

gladmat2011Það er ótrúlegt að ganga um miðbæ Stavanger í dag. Hann er einfaldlega tómur. Öllum hátíðum hefur verið aflýst hér og í Sandnes sem er mikil blóðtaka þar sem sumarið er tími stórra bæjarhátíða. Matarhátíðin Gladmat hefði átt að standa sem hæst í dag, fjögurra daga veisla sem dregur að jafnaði til sín um 250.000 gesti. Myndin hér til hliðar sýnir hátíðarsvæðið klukkan 18:30 í kvöld. Sama kvöld í fyrra var erfitt að koma sér á milli staða í miðbænum vegna manngrúans. Á heimasíðu Gladmat má sjá þessa yfirlýsingu. Þar segir að þjóðarsorg ríki í Noregi og hátíðinni hafi verið aflýst af þeim sökum. Þá er beðið fyrir samúðarkveðjur til þeirra sem atburðirnir í gær snerta.
gladmat 2010
Í Sandnes hefur rúlluskautahátíðinni Blink einnig verið aflýst en hana sækja að jafnaði Norðmenn hvaðanæva. Fánar blakta við hálfa stöng um alla borg, klukkan sex á laugardagskvöldi eru strætisvagnarnir nánast tómir og vagninn okkar, númer 11, kom á réttum tíma sem er nánast kraftaverk. Útibarirnir eru fámennari en nokkru sinni á laugardegi þrátt fyrir 23 stiga hita og blíðviðri. Stavanger, partýbær Noregs, er sem yfirgefin borg. Á borðum bara og veitingahúsa má sjá kerti og kort með samúðarkveðjum. (MYND: Þessa tókum við af svölum sparisjóðsins í Stavanger á fimmtudegi Gladmat-hátíðarinnar í fyrra. Á laugardeginum var mannfjöldinn tvöfaldur miðað við það sem hér sést. Í dag var enginn í miðbæ Stavanger.)
gladmat2011-2
Við skutumst niður í bæ til að taka myndir. Þar hittum við Karim frá Marokkó. Hann sagðist ekki hafa vogað sér út úr húsi í gær þar sem hann kemur frá múslimaríki og sagði sömu sögu af löndum sínum hér. Þetta var áður en ljóst varð að Norðmaður framdi verknaðinn en ekki íslömsk öfgasamtök. (MYND: Fáni blaktir í hægri hafgolu við hálfa stöng að baki galtóms hátíðartjalds.)
gladmat2011-4
Dagurinn í dag er í stuttu máli mjög sérstakur hér í Noregi. Hér ríkir þögn. Göturnar eru tómar, fólk er einfaldlega í áfalli eftir mestu blóðtöku norskrar þjóðar síðan Þjóðverjar réðust inn í landið 9. apríl 1940. Forsíður allra blaða eru helgaðar gærdeginum, VG fjallar einfaldlega eingöngu um þetta fyrir utan íþróttasíðuna. Þar segir meðal annars frá því að blóðbanki sjúkrahússins í Ullevåll, þar sem fórnarlömb skotárásarinnar í Utøya liggja, hafi þurft að vísa fjölda blóðgjafa frá í gær en þar fylltist allt af fólki í O mínus flokki sem vildi gefa blóð eftir að sjúkrahúsið sendi út neyðarkall til blóðgjafa í gær. (MYND: Kerti og kort með samúðarkveðjum á barborðinu á Dickens-barnum við Skagenkaien.)

Stórfréttunum rignir á sumarfrístímabilinu sem almennt kallast gúrkutíð á fjölmiðlum. Eden brann, fjöldamorð í Noregi, hlaup í Múlakvísl, símahleranahneyksli í Bretlandi og núna er ég að lesa á síðu Stavanger Aftenblad að Amy Winehouse hafi fundist látin á heimili sínu. Hvað verður það næst?

Athugasemdir

athugasemdir