Hjólreiðar, framtíðaríbúð og skróp á Whitney Houston

valandÍ dag hjóluðum við í fyrsta skipti niður á spítala og kom stórlega á óvart hve lítið mál það var. Þetta eru eitthvað á milli sex og sjö kílómetrar en leiðin þægileg. Stefnt er á að hefja átakið Hjólað í vinnuna þegar í fyrramálið (ef við nennum). Við tókum svo strikið frá spítalanum niður í Våland sem er hverfið sem liggur upp að miðbænum. Þar skoðuðum við leiguíbúð fyrir haustið. Við sáum hana auglýsta á finn.no sem er eBay Noregs í sölu- og leigumálum, hvort sem um er að ræða fasteignir eða lausafé. Íbúðin leigist út frá 1. september sem smellpassar okkur þar sem við verðum í litla kjallarafrímerkinu hérna uppi í Forus einmitt þangað til. (MYND: Våland, geysilega skemmtilegt, litríkt og gamalt hverfi spölkorn frá miðbæ Stafangurs, íbúðin sem við vorum að skoða er í húsinu sem glittir í yfir öxlina á mér, við enda götunnar.)

Våland er alveg yfirþyrmandi flott hverfi, minnir dálítið á blöndu af Þingholtunum og gamla bænum í Hafnarfirði í öðru veldi en hverfið er töluvert stórt. Íbúðin er á fyrstu hæð í húsi byggðu 1915, 85 fermetrar og leigist út á litlar 12.000 NOK sem eru 240.000 ISK. Ég hef áður bent á takmarkaða þýðingu þess að vera að hugsa allt í íslenskum krónum á meðan staða þess gjaldmiðils er eins og hún er, það gefur mjög takmarkaða mynd. Reyndar er leigumarkaðurinn rándýr hérna og verðið snarhækkar í nánd við miðbæinn svo það er dýrt að vera 101-rotta hér. Okkur finnst það þó eftirsóknarverðara en að eyða miklum tíma í lest og strætisvögnum, það er ómetanlegt að geta rölt niður í miðbæ. Fjarlægðin er sennilega um 800 metrar.
utsyni
Ekkert hefur þó verið ákveðið en okkur leist vel á og munum líklega tilkynna leigusölunum á morgun að við höfum áhuga. Nóg framboð er annars af leiguhúsnæði út um alla borg svo við erum ekkert að örvænta. (MYND: Efst í Våland stendur gamall turn, Vålands tårnet, en frá honum er svakalegt útsýni yfir borgina.)

Ég verð hugsanlega í spennitreyju á Kleppi þegar ágætir lesendur mínir drekka þennan texta í sig. Vicky, lærimeistari minn, liggur í hroðalegri tannpínu og verður ein tönn fyrir vikið fjarlægð úr henni í fyrramálið. Ég hleyp því í skarðið fyrir hana á morgun og þarf að þrífa gjörgæsludeildina einn í fyrsta sinn!! Herregud eins og Norðmennirnir segja. Ég er með þrjár blaðsíður af glósum mér til fulltingis um það í hvaða röð þetta á að gerast, hverju á að sleppa og hvað á bara að taka á mánudögum. Auk þess fylgja alls konar matskennd atriði sem tengjast fjölda sjúklinga á deildinni og hverju megi hugsanlega sleppa eða geyma það sé hann verulegur. Asklepios, hinn gríski guð læknisfræðinnar, er væntanlega réttur aðili til að beina bænum mínum til í kvöld. Gestir gjörgæsludeildarinnar eru flestir á grafarbakkanum og auðvelt að kippa einhverju óvart úr sambandi með moppunni ef athyglin er ekki á sínum stað. Herregud.
magnuslagab
Whitney Houston var með tónleika hérna í borginni í dag. Eftir mikla umhugsun ákváðum við að fara ekki en ég sé hálfpartinn eftir því núna, mig hefur alltaf langað til að heyra I Will Always Love You sungið live. Ég næ því mjög vel í sturtunni sjálfur. Í sárabætur fyrir að hafa klikkað á þessum tímamótakonsert erum við að spá í að skella okkur á Rammstein í Bergen 15. júní, þeir hafa nú allan sinn feril verið býsna hressandi, sexmenningarnir frá Berlín. Auk þess væri frábært að ná þeim 15. júní því þann dag héldu þeir fyrri tónleikana á Íslandi sumarið 2001 þar sem ég var einmitt staddur og grýtti Fruit of the Loom-nærbuxunum mínum úr Hagkaup á vinstri öxlina á Till Lindemann sem söng hálft Mutter með þær á öxlinni. (MYND: Söguglöggir menn þekkja ýmis fornfræg götuheiti í Våland, svo sem heiti þessarar götu sem ber nafn Magnúsar lagabætis Noregskonungs er lét semja Íslendingum sína fyrstu lögbók, Jónsbók, sem lögtekin var á Alþingi sumarið 1281.)
elli
Við erum búin að finna hommabar hérna í Stafangri sem heitir því hljómfagra nafni Sting. Við sátum að drykkju þarna á föstudagskvöldið ásamt Steina og Jackie (Jackie er kvenmaður svo það sé á hreinu) og ræddum um lífið og tilveruna. Við Rósa höfðum þá ekki hugmynd um að barinn væri vettvangur hýrra einstaklinga. Ég var að panta mér áttunda ginglasið þegar barþjónninn játaði skömmustulegur að hann ætti ekki meira Bombay-gin. ‘Hvurslags hommabar er þetta að eiga ekki nóg Bombay þegar ég mæti á staðinn?’ sagði ég við Steina, sem betur fer á íslensku. Steini, sem hefur búið hér í níu ár, leit þá á mig með ísmeygilegu augnaráði og sagði: ‘Ja, þetta er reyndar hommabar.’ Örskömmu síðar kom dauðadrukkinn Hollendingur og límdi sig utan á mig með hæpnum fullyrðingum, óvönduðu málfari og leiðinlegum kveðskap svo sennilega er þetta rétt. (MYND: Elli í syngjandi sveiflu á Hexagon á föstudagskvöldið. Þessir Ólafsvíkingar kunna tökin á flöskunni, það verður engu á þá logið.)

Athugasemdir

athugasemdir