Hið illa eðli fimmtudagsfría

Næstkomandi fimmtudag hefst sumar okkar Íslendinga opinberlega. Samkvæmt áratugahefð er þetta frídagur. Það sama gildir um uppstigningardag (sem heitir því frábæra nafni Himmelfahrt á þýsku). Þessi fimmtudagsfrí ná gjörsamlega að eyðileggja vikuna. Hvað veldur því að við höfum ekki fyrir löngu síðan fært fríið yfir á föstudag þótt hátíðardagurinn haldi sér sem fimmtudagur? Rökin eru einföld:

1) Drykkjumenn drekka sig í drasl kvöldið fyrir viðkomandi tyllidag og eyða deginum sjálfum fyrir vikið í bælinu við að sofa úr sér ölvímuna. Væri ekki meira vit í því að fagna til dæmis sumarkomu með því að gusa í sig göróttum drykkjum sjálfan fyrsta sumardag frekar en að taka miðvikudagskvöldið í drykkjuna og missa af sumarkomunni. Skýrt dæmi um þetta er 17. júní sem í ár er miðvikudagur. Þjóðin veltist um í brennivíni að kvöldi hins 16. og eftirlætur aðeins harðasta fjölskyldufólki að fylla miðbæinn sjálfan þjóðhátíðardaginn og kaupa þar ís og helíumblöðrur eins og fífl.

2) Föstudagurinn á milli helgar og fimmtudagsfrídags skilar minnstum tekjum allra daga í verslun og þjónustu. Þetta hefur fólk sem stundar bransann verslun og þjónustu margstaðfest opinberlega.

3) Vinsælt er að vera “veik(ur)” þennan staka föstudag. Kostnaður fyrir vinnuveitendur sem oftast þurfa að greiða laun fyrir minnst tvo veikindadaga í mánuði.

4) Öll vikan einkennist af einhvers konar landlægu letistuði af því að einn dagur í henni miðri er frídagur. Löng helgi drægi fram mun meiri bjartsýni, framleiðni og tilhlökkun.

5) Þetta er bara í heildina asnalegt. Lengjum helgina og eyðileggjum ekki sköpunargáfu og starfsorku með stökum frídegi sem fer hvort eð er bara í þynnku.

Sendu þínum þingmanni slóðina að þessari grein. Sóum ekki tíma Alþingis í karp um stjórnarskrárbreytingar og fiskveiðistjórnun, tökum fimmtudagsfríin af dagskrá! Drekkum brennivín á fimmtudögum og eigum frí á föstudögum…og laugardögum og sunnudögum.

Athugasemdir

athugasemdir