Hér verður aldrei svínaflensufaraldur, Haraldur…

…því hér er allt of kalt? Ja, maður veit það nú svo sem ekki. Sennilega er ekkert allt of kalt hér fyrir neinn faraldur nema ef til vill malaríufaraldur. Hvað sem því líður dvelja nú þrír Íslendingar á gjörgæsludeild vegna svínaflensu og því spáð í fjölmiðlum að þetta sé ekki nema byrjunin, við verðum á kafi í faraldri djöfulsins um jólaleytið og spænska veikin 1918 verði ef til vill bara eins og kvef í samanburði við það sem einhverjar Evrópuþjóðir muni upplifa. (MYND: Haraldur frændi minn, réttnefndur þjóðarleiðtogi.)

Kannski verður það raunin og kannski verður þetta bara hressandi blanda við þjóðargjaldþrot, skattahækkanir Steingríms J. og Icesave. Hver veit? Ég verð hins vegar að lýsa yfir ánægju minni með Harald Briem sóttvarnalækni. Ég er ekki hlutlaus, Haraldur er náfrændi minn. Engu að síður finnst mér frammistaða hans í fjölmiðlum með eindæmum lofsverð.

Haraldur hafnar aldrei viðtali og ræðir við alla fjölmiðla hvenær sem óskað er. Mér er það til efs að hægt sé að finna annað dæmi í heiminum um sóttvarnalækni heillar þjóðar sem býður viðtöl í garðinum heima hjá sér, borgaralega klæddur og rósemin uppmáluð.

Án þess að valda nokkurri múgæsingu útskýrir Haraldur sallarólegur að staðan sé svona og svona, við munum reyna að fá bóluefnið aðeins fyrr en efni stóðu til og menn skuli bara gjöra svo vel og þvo sér um hendurnar og, leiki grunur á smiti, taka sér langt og gott frí frá vinnu.

Á hinum endanum höfum við Jóhönnu og Steingrím J. sem standa fyrir framan myndavélarnar dag eftir dag og ljúga því blákalt að allt sé í fína lagi og efnahagur landsins hreinlega gæti ekki staðið betur. Allir hafa séð ársgömul viðtöl við Geir H. Haarde þar sem hann laug sömu hlutum, gjörsamlega vitandi að hann væri búinn að sigla skerinu upp á það sker sem það verði trauðla losað af…ekki einu sinni á háflóði.

Hvað er þá til ráða? Eigum við að fá sóttvarnalækninn á þing og Steingrím og Jóhönnu inn á deildir spítalanna? Hér hefur dýralæknir haldið um ríkisbudduna svo það væri ef til vill ekki út í hött að sóttvarnalæknir gerði það.

Athugasemdir

athugasemdir