Heima á ný

flugHin vængjaða kaldhæðni örlaganna er merkileg, að minnsta kosti þegar kemur að íslenskum flugsamgöngum. Þegar við fluttum hingað út 11. maí síðastliðinn háttaði svo til að eingöngu munaði millimetrum að við þyrftum að fljúga frá Akureyri vegna duttlunga Eyjafjallajökuls. Á elleftu stundu rofaði þó til í öskuskýinu mikla og við tókum á loft frá Keflavík í glampandi sól og blíðu.

Í dag, 4. janúar, var það vonskuveður á Egilsstöðum sem gerði það að verkum að við flugum ekki frá Reykjavíkurflugvelli með Flugfélagi Íslands heldur einmitt frá Keflavíkurflugvelli með sama félagi. Nú hljóta aðrir en farþegar með téðu flugfélagi til Stavanger og starfsmenn þess að klóra sér í höfðinu svo flasan þyrlast sem skæðadrífa um loftin. Skýringin er þó einföld…þannig séð. (MYND: Vængur. Myndin tengist pistlinum ekki, ég flaug um á Fokker Friendship 50 með skrúfum í dag.)

Á Reykjavíkurflugvelli er ekki tækjabúnaður til að framkvæma öryggis- og vopnaleit sem uppfyllir kröfur Evrópusambandsins og Alþjóðaflugmálastofnunarinnar um öryggi í flugsamgöngum. Þetta er hins vegar hægt á Egilsstöðum og auðvitað í Leifsstöð. Fluginu var því heitið austur á Egilsstaði fyrst og svo áfram hingað til Stavanger. Þegar í ljós kom að ekki var fært austur vegna ofsaveðurs var liðinu einfaldlega skóflað upp í rútu á Reykjavíkurflugvelli og það ferjað til Keflavíkur ásamt öllum farangri. Fokkerinn skutlaðist þetta á meðan á tíu mínútum, galtómur.

Vélin fór því ekki í loftið frá Keflavík fyrr en upp úr hálftvö í dag í stað þess að fljúga frá Reykjavík klukkan tólf stundvíslega. Því var ekki um neitt fríhafnarráp að ræða takk fyrir, um leið og síðasti maður kom úr öryggisleit var tekið á loft. Sá maður var reyndar sennilega ég, bara vegna þess að ég gleymdi því að ég var með hleðslutækið fyrir myndavélina á botninum í bakpokanum og það leit auðvitað út eins og fermingargjöf frá bin Laden. Það hlýtur að styttast í að fólki verið gert að fljúga nakið. Ég flýg ekkert svo oft og því verð ég var við stórauknar kröfur í þessari leit í hvert sinn. Núna þarf að taka ÖLL rafmagnstæki upp úr öllum vösum og töskum, þar með talið snúrur. Eru gangráðar teknir úr fólki á leynilegum skurðarborðum í bakherbergjum?
flugvallarleit
Ég gleymdi heilum hellingi án þess að hafa ætlað mér það, til dæmis liggur tónhlaða (e. i-pod) einhvers staðar á kafi í þessum sama bakpoka sem er raunar æfingataskan mín þegar ég er ekki að ferðast. Ég keypti mér gripinn í fyrra þegar ég ætlaði að auka mér ásmegin í stálinu með Slayer, Pantera og System of a Down en gafst upp þegar ég var búinn að kaupa tvisvar ný heyrnartól á hann þar sem stjórnborðið á snúrunni eyðilagðist alltaf af svita sem streymdi niður hana. Þetta drasl er greinilega fyrir fólkið sem kemur í ræktina til að labba um og heilsa upp á vini og vandamenn. Ég ætla þó ekkert að vera að skíta út þessa öryggismaníu, sennilega er skárra að fara úr skóm og rífa allt upp úr öllu en vera sprengdur í loft upp akkúrat yfir Þorlákshöfn eða Fagurhólsmýri.

Flugið var óvenjubærilegt (já, þetta er eitt orð, óvenju- er stirðnað eignarfall sem er orðið að áhersluforskeyti). Flugtími á Fokker 50 frá Keflavík til Stavanger er þrjár klukkustundir og 35 mínútur. Það eru 215 mínútur. Til samanburðar er flogið til Egilsstaða á 50 mínútum sem táknar að þetta var eins og að fljúga í striklotu frá Reykjavík til Egilsstaða og til baka tvisvar og svo í kortér frá Egilsstöðum í átt til Reykjavíkur. Ég las bókina hans Óskars Hrafns Þorvaldssonar, Martröð millanna, allt flugið og kláraði hana. Get mælt með henni fyrir utan að hann víxlar Flataskóla og Garðaskóla í Garðabænum sem ein persónan gekk í. Flataskóli er barnaskólinn, Óskar. Mér sárnaði þar sem ég gekk í báða þótt ég gerði svo sem ekki mikið meira þar en að ganga í þá. En fín bók og góð afþreying, sumir útrásarvitleysingarnir frekar auðþekktir úr samfélaginu og ‘montrassinn hann Jón Eiríksson á Heyrt og séð’ sem hætti að reykja og gekk með hvítt nikótínmunnstykki er óborganlegt skot en ég hitti fyrirmyndina einmitt í Leifsstöð í morgun með munnstykkið og heilsaði honum með virktum.
hryggur
Við lentum í Stavanger í hressandi rigningu og eftir stutta viðdvöl heima var haldið beint í nýju líkamsræktina okkar, Elixia, sem er orðin skuggalega flott eftir andlitslyftingu í desember. Ég ætla að gera eins og Stallone þegar hann þurfti að fita sig um tonn fyrir leik í Copland og láta banna alla spegla nálægt mér á næstunni. Munurinn er töluverður eftir fimmtán daga. Ég léttist um tvö kíló um jólin en er orðinn skvapkenndur eins og búðingur samt. Nú byrjar mjög miskunnarlaust átak þar sem þjáningin ein verður fæðingarhríð skilningsins. (MYND: Um það bil eitt mól af því sem ég lét ofan í mig síðustu fimmtán dagana.)

Meira um það, hryllilegan ólifnað á Íslandi og margt fleira í pistlum hér næstu daga. Lesendur eru því boðnir velkomnir að fara að leggja leið sína hingað daglega á ný eftir jólafríið.

Athugasemdir

athugasemdir