Haust, vinna og…eitthvað

vinnaTunglið er alveg stútfullt og blasir við mér hérna út um eldhúsgluggann. Mögnuð sjón. Annars er hér skollið á dæmigert haustveður, morgnarnir farnir að verða kaldari og hellirigning nokkrum sinnum yfir daginn. Demburnar standa þó yfirleitt stutt og í dag var glampandi sólskin tvisvar eftir hádegið. Sumum vinnufélögum mínum þykja þessar skyndirigningar óþægilegar, einkum Svíunum sem eru ekki vanir þessu. Þeir rjúka til og henda sér í regngallann en þá kemur glampandi sól. Þetta endurtekur sig svo kannski 5 – 6 sinnum yfir daginn. Ég er bara farinn að vera í ruddagallanum allan daginn og renni þá bara frá og tek hettuna af þegar sólin brýst fram.

Núna er unnið tólf tíma á dag svo ég geri ekki mikið annað en að vera í vinnunni, á ferðalagi til hennar eða frá eða á stuttum æfingum. Við erum að lesta 1.650 tonn af rörum sem eru á leið til Bretlands með skipinu Poprad og rússneskri áhöfn þess og þessu á að vera lokið fyrir helgi. Því er möguleiki á að unnið verði fram á nótt á föstudaginn.

Ég er því ekki mikið heima hjá mér núna. Út fyrir sjö á morgnana og heim kl. 22:20, át, einn kaffibolli og rúmið nema núna af því að ég er að skrifa þennan mjög stutta pistil. Svo bið ég auðvitað guð vinnu og eftirlauna um vinnu annan daginn um helgina, þá er yfirvinnan með 100 prósenta álagi í stað 50 á virkum dögum. Þetta verður þó allt að vera innan þeirra marka að ég þarf að geta laumað í mig dropa af brennivíni um helgina líka. Ekki má gleyma að smyrja lifrina.

Nú hefst svefn, ‘ylfrjór og góður’ eins og Snorri Hjartarson orti.

Athugasemdir

athugasemdir