Þetta er nú aldeilis lúxus, fyrsta helgarfrí okkar hjóna síðan einhvern tímann í ágúst er skollið á, útborgunardagur samhliða því og almenn hamingja á heimilinu. Af þessu tilefni drógum við hangikjötslæri frá Norðlenska úr frystinum á miðvikudaginn, suðum það á fimmtudaginn með tilheyrandi ilmi og átum það í gær með tilheyrandi uppstúf, rauðvíni og öðru sjálfsögðu meðlæti. (MYND: Gamla sveitarómantíkin. Maður fann það ekki á bragðinu að kvikindið ætti að baki tæpt ár í frystinum. Glimrandi máltíð.)
Almennt er það ekki þannig að við liggjum á hangikjötsrúllu í frystinum en þessa keyptum við hjá þeim hjónum í Islandsfisk í Svíþjóð fyrir síðustu jól þegar þau fóru jólasöluferðina um Noreg. Svo sendu pabbi og tengdamamma okkur sína rúlluna hvort og eðli málsins samkvæmt varð því ekki komið við að spæna þetta allt í okkur á jóladag svo við höfðum rúllu tvö um páskana og þessa síðustu svo núna. Alltaf jafnsérstök tilfinning að fá þennan mat en ekkert grín hvað þetta er þungt í maga. Þurfti töluvert brennivín til að hjálpa meltingunni í gang.
Nágranni okkar uppi, sem er búinn að halda sér edrú á antabus-kúr í allt sumar, sprakk á limminu í gær og var kominn á öskrandi fyllerí um það bil sem við komum úr vinnu. Það leynir sér aldrei þegar það gerist því þá eru græjurnar í botni og lagavalið þannig að það gæti verið af Best of Eurovision sautján hundruð og súrkál diskinum sem enn á eftir að gefa út en allt efnið á hann er til hérna uppi.
Þessi heiðursmaður bankaði upp á hjá okkur og bauð okkur upp í betri stofuna sem er í risi hússins og með svakalegu útsýni yfir Gandsfjorden. Svo hófust hefðbundnar frægðarsögur af því þegar hann var innsti koppur í búri í undirheimum Sandnes (sem eru á mörkum þess að vera til), stofnandi og heiðursfélagi Hells Angels til dauðadags og ég veit ekki hvað. Það er gaman að honum samt og fínt að hafa hann hérna í risinu. Drykkjumenn eru stórlega vanmetin stétt.
Ég heimsótti bókasafn bæjarins í fyrsta sinn núna á miðvikudaginn og stofnaði kort þar. Höfuðtilgangurinn var að koma höndum yfir einu bók Jo Nesbø sem ég á eftir að lesa, Kakerlakkene (1998), en það er önnur bókin hans og mér bara tekst ekki að finna hana í bókabúðum á Stavanger-svæðinu. Hún kom náttúrulega strax í leitirnar svo nú hef ég eitthvað að lesa í kaffitímunum í vinnunni á ný. Auk þess fengum við lánaðar nokkrar kvikmyndir og þáttaröðina Six Feet Under sem ku gerast í líkhúsi nokkru. Úrvalið á bókasafninu er mjög metnaðarfullt og ég á sennilega eftir að verða fastagestur. Kortið gildir þar að auki hjá öllum bókasöfnum Noregs sem eru sennilega nokkur.
Ég er hættur að geta sofið út. Vaknaði klukkan 06:41 í morgun, á laugardagsmorgni í fríi, og gat með herkjum sofnað aftur. Þetta er skelfileg þróun, fyrstu 37 ár ævi minnar var allt fyrir klukkan 12 á hádegi um helgar skilgreint sem nótt og ég svaf sem barn þangað til. Núna er ég glaðvaknaður fyrir allar aldir, jafnvel eftir ruddadrykkju kvöldið áður, og þarf að beita mig hörðu til að sofa áfram. Þetta er hálfgerður andskoti en á móti kemur að ég rýk eldferskur á fætur klukkan 05:30 alla virka morgna og er farinn að lyfta lóðum í City Gym tuttugu mínútum seinna. Frábært að koma því frá fyrir vinnu.
Sem nýbakaður bifreiðareigandi fæ ég nú að upplifa Sandnes frá því sjónarhorni. Það er reynsla út af fyrir sig. Vegalengdin í vinnuna hjá okkur í Sola er ekki löng, 17 kílómetrar, en ef við ökum ekki af stað frá ræktinni í síðasta lagi klukkan 06:55 getum við ekki búist við að ná til vinnu fyrir klukkan átta. Klukkan sjö stundvíslega er skollið á sannkallað Skaftárhlaup ökutækja sem sameinast úr öllum hverfum bæjarins á leið sinni út á “hrað”-brautina E39 og til vinnustaða í Stavanger og víðar. Við notum ekki E39 en keyrum yfir hana og þurfum að fara gegnum hringtorgið sem tekur við umferð út og inn af henni. Þegar sú hindrun er að baki ökum við tiltölulega greiða leið gegnum Sola og upp á Tananger. Ég skutla Rósu af á sínum vinnustað 07:15 og er á mínum 07:22. Tefjumst við um nokkrar mínútur er mér til efs að við næðum þessu fyrir klukkan átta. Flöskuhálsarnir í vegakerfinu hérna eru svakalegir en ekki er reiknað með miklum úrbótum.
Ausandi rigning hefur einkennt haustið 2012 fram að þessu og virðist ekkert lát á. Reyndar er ekki rigning akkúrat þegar þetta er skrifað en það er nánast kraftaverk. Í kvöld verður kveikt upp í arni heimilisins með Masi-rauðvín, Hammer-vodka og Bubba Morthens á kantinum. Og frí á morgun. Lífið gerist tæplega betra. Svona verður þetta á hverjum degi þegar ég fer á eftirlaun eftir aðeins 29 ár.