Handboltahorf og önnur málfræðihugtök

Islenskt malTímaritið Íslenskt mál og almenn málfræði, 35. árgangur, dúkkaði upp í póstkassanum hjá mér í síðustu viku. Iðulega finn ég til nokkurrar eftirvæntingar þetta eina skipti á ári sem mér veitist sú gleði að halda á nýfæddu afkvæmi Íslenska málfræðifélagsins í plastinu og velta því fyrir mér hvaða öndvegisfræðimenn drepi nú niður penna að þessu sinni, hvort nokkur fróðleg doktorsvarnarandmæli líti dagsins ljós og þar fram eftir götunum. Hefur tilfinning þessi ágerst með búsetu minni erlendis enda tel ég mig finna gleggri og skýrari tengsl við íslenska tungu með hverju Noregsárinu sem þýtur hjá.

Ekki varð ég fyrir vonbrigðum að þessu sinni þar sem við sjálft liggur að hálft ritið sé undirlagt fræðilegri sprengju undan rifjum höfundanna Ástu Svavarsdóttur, Eiríks Rögnvaldssonar, Höskuldar Þráinssonar, Jóhannesar Gísla Jónssonar, Sigríðar Sigurjónsdóttur og Þórunnar Blöndal. Nákvæmlega hálf hersveitin eru fyrrum kennarar mínir og þau spyrja stórt í titlinum: Hvert stefnir í íslenskri setningagerð? Um samtímalegar kannanir og málbreytingar.

Þar sem ég hef sjálfur sennilega oftar en milljón sinnum á síðustu tveimur áratugum spurt mig einmitt þessarar spurningar útbjó ég mér sérstaklega digran bolla af neskaffi síðdegis í gær og hóf lesturinn.

Sérstaklega ánægjulegt var að hnjóta snemma í greininni um hugtakið handboltahorf sem heiti á orðalagi á borð við „Þeir voru að spila fína vörn“, sem sagt orðasambandið vera að á undan einhverri sögn, einkum í íþróttalýsingum. Það tók sinn tíma en hlaut að koma að því að þessi lífseigi ósiður íþróttafréttamanna eignaðist eigið heiti í heimi málvísindanna. Nefnd er til sögunnar rannsókn Þóreyjar Selmu Sverrisdóttur (2001) sem lýtur að einhverju leyti að íþróttafréttum Morgunblaðsins á tíunda áratug liðinnar aldar og væri vafalítið fróðlegt að kynna sér nánar helstu niðurstöður þar. Sjálfur barðist undirritaður hatrammlega gegn þessu annarlega orðalagi þegar hann hóf störf sem prófarkalesari á Morgunblaðinu vorið 2000, svo hugsanlega hefði tölfræði Þóreyjar breyst skyndilega hefði rannsókn hennar náð yfir aldamót, og enn fremur tel ég mig hafa farið nokkuð langt með það verkefni að venja íþróttafréttamenn blaðsins þeirri nöturlegu staðreynd að orðatiltækið að ganga ekki heill til skógar nær almennt ekki yfir íþróttameiðsl.

Ískyggilegri varð þó lestur greinarinnar er kynnt var til sögunnar könnun meðal ólíkra aldurshópa, fyrst nemenda í 9. bekk og svo hópanna 20 – 25, 40 – 45 og 65 – 70 ára, á mati þeirra á setningagerð á borð við eftirfarandi:

Það var rekið manninn út af staðnum

Það var strax dæmt vítaspyrnu

Það var borðað svo margar kjötbollur

Það var beðið mig að vaska upp

Jón var sendur heim en það var bara skammað Óla

Það voru nokkrir reknir en bara áminnt aðra

Nokkur mjög gróf dæmi um það sem talað hefur verið um sem nýju þolmyndina (sjálfur hef ég verið hallari undir hugtakið gerviþolmynd þar sem byggt er á gervifrumlaginu það sem getur auðvitað aldrei verið frumlag (gerandi) í setningu) og er svo sem allt annað en ný núorðið þar sem fræðimenn hafa ritað um hana a.m.k. síðan 1991 (Helgi Skúli Kjartansson, 1991). Nú blasir hins vegar sá magnaði veruleiki við að málfar af þessu tagi virðist vera það sem koma skal. Á milli 40 og 60 prósent (mest 61 prósent í setningunni Það var strax dæmt vítaspyrnu) nemenda í 9. bekk svara því til að þeir telji þetta ágætlega nothæfar setningar í daglegu tali. Fylgið hrynur svo eftir því sem ofar dregur í aldurshópum og verður yfirleitt á bilinu 0 til 5 prósent hjá elsta hópnum, nema reyndar í vítaspyrnusetningunni sem sker sig rækilega úr og hlýtur atkvæði 23,4 prósenta úrtaksins í 65 – 70 ára hópnum.

Ég er ekki kominn lengra með greinina en hef skemmt mér konunglega fram að þessu. Hlakka mikið til að lesa um vaxandi þágufallshneigð í næsta kafla en nú er víst orðið of politically incorrect að tala um þágufallssýki þar sem það hugtak telst allt of gildishlaðið fyrir fræðimenn. Þá kemur nú gömul vísa upp í hugann:

Hún amma er orðin að líki,

hún andaðist rétt fyrir nón.

Hún þjáðist af þágufallssýki

og þekkti mig aldrei í sjón.

Athugasemdir

athugasemdir