Hagsælda hrímhvíta móðir

sland fr nasaAð líkindum drep ég ekki niður fjaðurstaf hér fyrr en eftir helgi þar sem ég langförull legg land undir fót síðdegis á morgun og enda að forfallalausu uppi á Íslandi klukkan 22:20. Þetta verður engin kurteisisheimsókn, öðru nær. Öldurhús landsins verða reynd til þrautar, eitthvað verslað og ástand lands og þjóðar almennt kannað. (MYND: Ísland 21. júní 2004./NASA Earth Observatory)

Það er leiðinlegt að játa það en vegna helfarar þessarar hef ég að sjálfsögðu tekið stöðu gegn íslensku krónunni sem þótti nú vinsælt efnahagsbrot í tíð Hrunamanna. Samkvæmt gengisskráningu við lokun markaða í dag fást 22,13 íslenskar krónur fyrir hverja norska en það hryggði mig ekki ef sú íslenska veiktist enn fremur fyrir helgi. Þeim mun ódýrari verður heimsókn mín. Geir í gumna sárum gnast, kannkat þat lasta, eins og Þorgrímur goði kvað.

Góðir menn og konur hafa boðið okkur í átveislur og einhverjir munu blása til ölteiti nokkurrar á heimilum sínum vegna komu okkar og er það vel. Ef að líkum lætur mun sjást til okkar á ölstofu þeirri er við Kormák er kennd og Skjöld og jafnvel ekki örgrannt um að þaðan verði farið beint á Keflavíkurflugvöll með leigubifreið að morgni sunnudags en hefð hefur skapast fyrir slíku.

Þetta verður alla vega gaman, mér er skítsama hvernig veðrið verður.

Athugasemdir

athugasemdir