Hún var ekki slæm, brjóst- og bicepæfingin sem átti sér stað í World Class Laugum í dag. Eiginlega var hún jafngóð og axlaæfingin á fimmtudaginn var ömurleg en sú fór fram í World Class Seltjarnarnesi. Er það staðsetningin? Er eitthvað í vatninu þarna í Laugum eða hvað er málið?
Sennilega ekki. Sumir dagar eru bara þannig að það er sama hverju maður hleður á stöngina, það fer upp. Ekki skemmir að hafa stútfulla tónhlöðu af Rammstein, Pantera og fleiri góðum listamönnum. Svoleiðis var þetta í dag og mikill andi í mönnum – mér og fleirum. Mataræði og dagsform eru helstu breyturnar í stálbransanum sýnist mér svona fljótt á litið eftir 22 ár í lóðaskrölti.
Dagsforminu ræður maður takmarkað en stjórnin á mataræðinu er öllu meiri. Ég hef eyðilagt heilu æfingarnar með heimskulegu áti rétt fyrir þær en ef neysla mín fyrir æfinguna í dag hefur eitthvert almennt fræðilegt gildi ætla ég hér með að leka matseðlinum áður en Wikileaks verður á undan mér. Þetta er frekar einfalt:
Geðsjúkur laugardagur í bekkpressu fyrir einn
Magnamín frá Lýsi h/f – eitt hylki
Þrír bollar af rótsterku Nescafé Gold
Sneisafull skál af hafragraut með rúsínum
Fimm grömm af Nitrobolon II kreatíni frá Trec Nutrition
Þetta er sprengjan sem skilaði endalausum bætingum í dag en svo virkar þetta kannski ekki á mánudaginn – og kannski ekki fyrir aðra en mig. Ég hef áður skrifað hér pistil um kreatínið Nitrobolon II. Það kemur gríðarvel út í mínum persónulega samanburði og ég rifja það hér upp að ég líki því einna helst við Creatine Fuel frá Twinlab og Cell-Tech-ið góða frá Muscletech. Sem sagt fínt kreatín sem hjálpaði mér að hlaða á mig 5,3 kílóum á sex vikum og það nánast án niðurgangs sem er þekkt aukaverkun sumra tegunda kreatíns á mig.