Hæ hó jibbí jei, 17. maí

thjodhatidiiJæja, þá er komið að þjóðhátíðardeginum hérna í Noregi. Kærkomið frí eins og öll frí. Ég skrifaði um þennan merkisdag í þessum pistli hérna í fyrra og er svo sem óþarft að endurtaka þann fróðleik en Norðmenn leggja gríðarlega mikið í þennan dag og halda hann mjög helgan. Frúin verður að vinna svo ég sé til hve framtakssamur ég verð, sennilega geri ég ekki neitt. Ég er að lesa bókina hans Helga Ingólfssonar sem kom út um jólin, Þegar kóngur kom, og líklegt að ég sitji heima með bók og kaffibolla. Slíkir dagar eru ómetanlegir. (MYND: Frá þjóðhátíðinni í fyrra. Þá höfðum við búið hér innan við viku.)

Ég fer að minnsta kosti ekki að lyfta, það er lokað í Elixia á þjóðhátíðardaginn. Eins fellur taekwondo-æfing niður en verður reyndar í staðinn á miðvikudag. Nú styttist í næstu gráðun sem er í júní og spennan er farin að verða merkjanleg. Í þetta sinn ætla ég að byrja að lesa teoríuna snemma, ég var illa lesinn síðast en dæmalaust heppinn með spurningar. Að fara upp í 1. dan í þessu er sennilega á við heilt BA-nám.

Ég átti rólegan dag í vinnunni í dag, loksins. Svona stakir vinnudagar á milli frídaga eru steindauðir. Því miður fylgja þeim líka ‘veikinda’-forföll einstaklinga sem tíma ekki að blæða einum af sumarfrísdögunum sínum í að taka sér frí eða vita að þeir fengju sennilega ekki frí vegna þess að þeir vinna á mikilvægum deildum þar sem áhrif helgidaga ná ekki inn fyrir dyr. Fórnfúsir og vinnusamir einstaklingar tóku á sig byrðar ógæfumannanna og ég slapp við holskeflu kvörtunarsímtala og -tölvupósta. Ekki ætla ég að gera mig sekan um fordóma neins konar en sumt fólk af ákveðnum þjóðernum virðist hafa það að markmiði í lífi sínu að gera helst ekki neitt og fá sem mest greitt fyrir það. Var þetta ekki pent orðað?

Það stefnir sem sagt í þægilegan þjóðhátíðardag og mikil rólegheit. Alveg á mörkunum að maður nenni að hengslast niður í bæ þótt ekki sé nema stundarfjórðungsganga þangað. Maður er orðinn býsna latur, langt innan við fertugt.

Athugasemdir

athugasemdir