Góðir Íslendingar (og nokkrir Norðmenn)

jl2011atlisteinn.is óskar landsmönnum öllum til sjávar og sveita gleðilegrar jólahátíðar og farsæls 2012 sem undirritaður hefur grun um að verði eitt besta árið í sögu hans fram að þessu, allt stefnir í þá átt. Árið sem er að líða var ár mikilla tímamóta og færði okkur báðum mikla uppsveiflu í atvinnumálum, heitustu páska í 70 ár og mjög bráðlega fyrstu jól og áramót í Noregi.

Við sendum engin jólakort í ár, ákváðum að við nenntum því ekki núna, en sjáum svo eftir öllu saman þegar póstkassinn er fullur af kortum frá Íslandi hvern dag sem við komum heim úr vinnu. Þess vegna erum við búin að ákveða að setja heimsmet í jólakortaskrifum næstu jól. Bíðið bara…og takk fyrir hlýhuginn.

Sum ár, ég man sérstaklega eftir 2007, höfum við setið með rauðvín og kertaljós og skrifað tugi jólakorta. Það ár einmitt voru þau sérhönnuð fyrir okkur hjá Samskiptum ehf. með mynd sem var tekin í Búlgaríu þá um sumarið og hafði ekkert með jólin að gera. Ég fékk miklar þakkir frá hinum og þessum fyrir að senda eitthvað annað en kort með kirkju, jólasveini, snjókarli eða vælandi hvítvoðungi í fjárhúsi. Það síðasttalda væri brot á barnaverndarlögum nú til dags.

Þegar þetta er skrifað eigum við eftir einn vinnudag fram að jólum og í dag tók sólargangur að lengjast aftur sem mér finnst alltaf frábær tímamót. Miðað við hve sunnarlega við erum í Noregi verður merkilega mikið skammdegi hér en veðrið er betra en á Íslandi svona almennt. Það kemur eiginlega aldrei almennilegur vetur í Stavanger, í dag var 9 gráða hiti og í fyrra var ég í sólbaði í lok október.

Um leið og atlisteinn.is þakkar fyrir ánægjuleg samskipti árið 2011, þar á meðal fyrsta lesandann frá Norður-Kóreu samkvæmt heimsóknatölfræði, vafalítið Kim heitinn Jong-il, langar mig að ljúka þessum pistli á fleygum orðum míns ágæta sænska vinnufélaga Rasmusar Börjesson sem féllu í dag. Hann var þá að kveðja mig og óska gleðilegra jóla þar sem þeir Svíar halda til heimalandsins á morgun og verða yfir jólin. Við ræddum væntanlega drykkju um hátíðina og þá sagði Börjesson eitt það fegursta sem ég hef heyrt um dagana á sænskuskotinni norsku sinni:

Jul uten brennevin er ingen jul.

Mér finnst vel við hæfi að Rasmus eigi þau lokaorð. Gleðilega hátíð kæru vinir, við komum til lands ísa um næstu jól og dveljum yfir jól og áramót.

Athugasemdir

athugasemdir