Djöfull er ég sáttur við Jón Gnarr í Kastljósinu í gær! Eftir að Brynja þylur upp öll þau kosningaloforð sem Jón hefur svikið segir hann sallarólegur: ‘Já, en ég sagði líka að ég myndi svíkja öll kosningaloforð sem ég gæfi.’ Það er alveg rétt, hann sagði það í vor, ég man það eins og ég sit hér og skrifa þennan pistil.
Þessi orð hans minna mig á gamla rökfræðigátu: Ef rakarinn þinn segir við þig: ‘Ég lýg alltaf.’, hvort áttu þá að trúa honum eða ekki? Svarið er að þú getur hvorki trúað honum né ekki trúað honum. Ljúgi hann alltaf hlýtur það að vera lygi þegar hann segist alltaf ljúga og þar með hlýtur hann einhvern tímann að segja satt sem getur hins vegar ekki verið ef hann lýgur alltaf. Gátan er þversögn og gengur aldrei upp.
Jón Gnarr er líka þversögn, það skilur hver sem hefur séð einn þátt af Fóstbræðrum. Ef borgarstjórinn þinn er sérfræðingur í að leika rosknar konur (meðal margs annars) hvort áttu þá að trúa honum eða ekki þegar hann segir í Kastljósi að vilji hans sé að niðurskurður bitni á sem fæstum? Ég hallast að því að trúa honum. Ég myndi ekki kjósa yfir mig neinn síðustu borgarstjóra Reykjavíkur frekar en Jón Gnarr – ég get reyndar ekki hallmælt mínum gamla skólabróður Degi B. Eggertssyni og telst sennilega vanhæfur til að fjalla um hann opinberlega þar sem við þekkjumst ágætlega.
Talandi um vanhæfi. Brynja spyr Gnarr (frá 14:09 í þættinum): ‘Það hefur komið fram gagnrýni frá minnihlutanum um að þú sért vanhæfur. Það er talað um að borgin sé forystulaus, Hanna Birna segir að það sé mikið talað um tattúið þitt og reykleysið og…en svona minna um málefni borgarbúa. Hvernig slær þetta þig?’
Brynja Þorgeirsdóttir ætti að vita það fullvel sem fjölmiðlakona, enda hefur það gengið fjöllunum hærra, að Hanna Birna er svo grjótfúl eftir ósigur síns ástkæra flokks í vor að hún yrðir ekki á Jón Gnarr nema hún þurfi þess á opinberum vettvangi. Þetta hef ég sjálfur fengið að heyra frá fólki sem þekkir til í ráðhúsinu og trúi því vel. Sjálfur þekki ég ágætlega til í Ráðhúsi Reykjavíkurborgar þar sem ég vann í byggingarvinnu hjá Ístak hf. árið 1991 og bjó meðal annars allar lyftudyr hússins undir múrverk, sautján ára gamall unglingurinn og rétt farinn að þefa af brennivíni.
Auðvitað kemur gagnrýni frá minnihlutanum á meirihlutann, til þess er hann minnihluti. En þess ber að minnast að gagnrýni Hönnu Birnu er klárlega sprottin af öfund enda er hún örugglega ekki með tattú eins og við Jón Gnarr…