Hvað hafa Kristalsnóttin, Bastilludagurinn og hinn blóðugi sunnudagur Norður-Íra að gera í þetta hugtak?!? Nákvæmlega ekki neitt! Enn eitt hrikalegt nýyrðið lítur dagsins ljós eftir viðburðaríkan dag. Ég átti von á að Sigurjón Kjartansson fengi að verma toppsætið alla vega út vikuna eftir að hann ungaði út hinni hlýju flokkssæng hjá Agli í gær (sjá pistil neðar) en Geir H. Haarde mátaði hann alveg í spjalli á Stöð 2 í kvöld með Glitnishelginni blóðugu.
Alveg er það magnað að sjá að hinn frægi Haarde-hroki er enn í fullu fjöri eftir allt sem gengið hefur á síðan maðurinn stýrði hriplekri þjóðartrillunni í strand haustið 2008. Frasar á borð við ‘Þessi spurning er alveg út í hött,’ og ‘Ég ætla ekkert að svara því hér hvort [bla bla bla]…,’ eru enn í fullu gildi hjá Geir án þess að einnar krónu innstæða reynist fyrir þeim. Hljómar allt mjög kunnuglega síðan ég var á Vísi og mætti á blaðamannafundi í Stjórnarráðinu. Þá var það bara gamla góða ‘Sko, við erum ekkert að tala um þetta núna!’ og fleira í þeim dúr sem streymdi fram áður en hefðbundnar yfirlýsingar komu um að lífeyrissjóðakerfið stæði styrkum fótum og enn væri fiskur í sjónum. Og þá var bara allt í þessu fína…þangað til í október.
Annars tek ég aftur það sem ég skrifaði í pistli fyrr í dag um að ég ætlaði ekkert að fara að liggja í skýrslunni. Eftir að ég las glimrandi samantekt Vísis á helstu bombum skýrslunnar ætla ég að kasta mér yfir hana eins og fluga á skít þegar tíminn fer aftur að vinna með mér. Lýsingar Össurar Skarphéðinssonar á snúðaáti Sigurjóns Árnasonar og sjálfum sér nöktum í World Class á leið til klæðskera eru bara einfaldlega Nóbelsverðlaunaefni. Nú er spurning dagsins bara hvort Páll Hreinsson og félagar verði á palli í Stokkhólmi í desember eins og skáldið góða frá Laxnesi árið 1955.