Glímuskjálfti

i gardinumIcesave-málið er á suðupunkti, það er bókstaflega allt á hvolfi í íslensku fjölmiðlunum og Aftenposten hér í Noregi fjallaði í gær um nýja 54,8 prósenta nei-ið sem þá var niðurstaða könnunar Fréttablaðsins og benti um leið á hátt hlutfall svarenda sem enn væru óákveðnir, þá 24 prósent. Aftenposten skrifar að nú takist Íslendingar á um greiðsluáætlun sem nái til ársins 2046 með 3 – 3,3 prósenta vöxtum. Þetta er galið, ég verð 72 ára þegar málið er dautt verði þetta að veruleika. (MYND: Það er komin þessi rjómablíða hérna í Stavanger og nú hægt að sulla í köldu hvítvíni í garðinum á ný. Myndin er tekin á afmælinu mínu í síðustu viku.)

Það byltingarkenndasta við þetta þjóðaratkvæði á morgun er að það verður allt vitlaust hvort sem niðurstaðan verður nei eða já, afleiðingarnar verða svakalegar hvort sem verður ofan á.

Ég ætla rétt að vona að kosningavaka RÚV verði í beinni á vefnum annað kvöld, við ætlum að koma heim úr afmæli hjá henni Jónu Líf til að fylgjast með þessu. Nú á sumartímanum erum við tveimur tímum á undan Íslandi svo klukkan verður orðin eitt um nóttina þegar vakan hefst.

Klukkan 14:30 í dag hefst langt helgarfrí hjá mér. Ég á kvöldvaktaviku í næstu sem þýðir frí á mánudaginn. Sennilega veitir ekki af til að fylgjast með Icesave-eftirskjálftanum. Hann verður 10,0 á Richter.

Héðan frá Noregi kemur vænn bunki af kjörseðlum með nei-i, það ræð ég af spjalli við Íslendinga hér. Að lokum vona ég bara að þjóðin beri gæfu til að fella samninginn á morgun og megi vanhæfasta ríkisstjórn lýðveldisins sópast út af borðinu með. Sjaldan hafa svo margir átt svo fáum svo lítið að þakka.

Gleðilega þjóðaratkvæðagreiðslu, skál og góða helgi!

Fimmaurabrandari dagsins: Hvað myndast þegar kynskiptingar fitna? Transfita, ha ha!!!

Athugasemdir

athugasemdir