Gleðilega hátíð – næsti pistill 4. janúar 2011

jolinatlisteinn.is óskar Íslendingum til sjávar og sveita gleðilegrar jólahátíðar og gæfuríks nýs árs ásamt því að þakka innilega fyrir samskiptin á árinu sem er að líða og ötulan lestur á efni síðunnar. Gestir á atlisteinn.is urðu mest 3.322 á einni og sömu vikunni og komu heimsóknir mest frá 22 þjóðlöndum á viku en oftast frá 17 löndum. Meðal forvitnilegra landa sem heimsóknir komu frá má nefna Sádi-Arabíu, Afganistan, Indónesíu og Kína. Vonandi tókst viðkomandi lesendum að stauta sig fram úr íslenskunni. Takmarkið er að fá heimsókn frá Norður-Kóreu.

Algengustu leitarorð sem skiluðu fólki inn á síðuna frá leitarvélinni Google voru gyllinæð, brjósklos og nafnið mitt, allt saman góð og gild hugtök og vonandi fundu flestir það sem leitinni var ætlað að skila.

Ástæðan fyrir því að ég tek mér þetta grófa jólafrí frá skrifum hér er að við fljúgum heim til ástkærrar fósturjarðar á morgun og ég nenni ekki að taka tölvuna með mér. Þetta verður lengsta pistlahlé síðan atlisteinn.is hóf sigurgöngu sína 1. febrúar 2009 og mér finnst þetta agalegt en veit að lesendur sýna mér skilning. Einnig er full ástæða til að þakka fyrir þær fjölmörgu athugasemdir sem komið hafa gegnum athugasemdakerfi og skilaboðamöguleika síðunnar, fátt er ánægjulegra en að heyra hvað lesendur manns hafa að segja. Margir hafa einnig notfært sér vitneskjuna um búferlaflutninga mína til Noregs til þess að senda mér fyrirspurnir um hvernig best sé að koma undir sig fótunum hér og ekkert er nema gott um það að segja.

Eins og ég hef skrifað um hér áður er ekki möguleiki að við náum að hitta alla sem okkur hefði langað að hitta á Íslandi. Settur hefur verið upp forgangslisti sem mun í stórum dráttum ráða ferðinni en sjaldan hef ég séð heila 15 daga verða að jafnlitlu sem nú er raunin. Fyrir þá sem þekkja mig verð ég með gamla íslenska GSM-númerið mitt heima, ef ég birti það hér fæ ég eintóm símtöl frá Intrum og rukkunardeildum bankanna svo ég læt það vera.

Gleðileg jól, gæfuríkt komandi ár og djöfull hlakka ég til að mæta í jólahlaðborð Argentínu annað kvöld!!! Tvöfaldur gin og tónik í leðursófanum við arininn verður forgangsverkefni. Hrikalegur ferðasögupistill með myndum sem verða ekki fyrir hjartveika hér á atlisteinn.is 4. janúar 2011.

Athugasemdir

athugasemdir