Gleðileg jól

jlakveja2012Ritstjórn atlisteinn.is óskar öllum Íslendingum til sjávar og sveita, og í Noregi, gleðilegra jóla og farsæls komandi árs með kærri þökk fyrir það sem nú er senn á enda. Dyggum lesendahópi, sem nú nálgast 500 fasta lesendur í viku hverri, er þökkuð þolinmæðin og beinhörð þrautseigja við að koma nánast alltaf til baka og bergja af kaleik dags daglegs rugls og grámyglulegs hversdagsins í lífi mínu sem oftar en ekki lumar þó á einhverju sem segja má frá. Þið eruð fólkið sem heldur spilverkinu gangandi.

Óvænt og ánægjuleg fjölgun varð í fjölskyldunni klukkan 03:05 í nótt þegar Kára bróður mínum og Þórhildi mágkonu fæddist sveinbarn er reifað var og lagt í jötu á Landspítalanum. Þar með eru þau komin með eitt af hvoru kyni og geta hætt þessu. Örverpi þetta ku hafa komið undir um páskana samkvæmt tímatalsreikningum og sé fæðingartíminn skoðaður í samhengi við þetta hlýtur hreinlega sjálfur frelsarinn að vera kominn endurfæddur í heiminn enda oft búið að spá fyrir um það. Innilega til hamingju með þetta bró!

Athugasemdir

athugasemdir