Gámur, Bubbi og drykkja

canadaTæming gámsins gekk heldur betur vonum framar og ég hálfskammast mín fyrir rausið í mér í gær. Við vorum nývöknuð um hálfellefu í morgun og rétt að hita okkur kaffi þegar bílstjórinn hringdi og kvaðst vera í Mandal sem er í um einnar og hálfrar stundar akstursfjarlægð. Hann bjóst við að verða á svæðinu um tólf svo við drifum okkur í strætó niður á Hillevågsveien, þar sem við munum geyma allt draslið í sumar, og rétt náðum að sporðrenna ostasnitzseli með bernaise-sósu á Patrioten Bistro við hliðina á áður en gríðarmikill heiðblár Eimskipsgámur brunaði fram hjá. (MYND: Rokkararnir í Canada áttu sviðið á Chevy’s skuldlaust í kvöld. Rokk, ról, gin og tónik, það er lífið.)

Ég hljóp öskrandi út, þakinn bernaise-drullinu, og náði við illan leik að hringja í bílstjórann sem sneri við á næsta hringtorgi og mætti svo vígreifur á staðinn. Sem betur fer mætti Elli líka með lykilinn að húsnæðinu, sem er skrifstofa yfirmanns hans, og svo hófst harðari fitubrennsla en Ágústa Johnson gæti nokkurn tímann látið sig dreyma um.

Bílstjórinn hjálpaði, ólíkt því sem tekið var fram í samningsskilmálum Eimskipafélagsins, en hins vegar bjó hann ekki yfir töng til að rjúfa innsigli gámsins með. Eftir mikla leit í geymsluhúsnæðinu fannst fremur pasturslítil töng sem bílstjórinn eyðilagði á innsiglinu en undir lokin hrökk það í sundur. ‘Sjaldan brotnar bein á huldu, frændi,’ eins og Axlar-Björn mælti við aftöku sína.

Til að gera stutta sögu enn styttri mokuðum við út úr þeim bláa í steikjandi sól og blíðviðri á 58 mínútum sléttum og telst nýtt vallarmet. Miklir fagnaðarfundir urðu þegar hljómflutningstæki heimilisins komu í ljós og skömmu síðar stór kassi af geisladiskum. Var tækjunum umsvifalaust veitt raforka og meistara Morthens grýtt yfir geislann, Fjöllin hafa vakað. Það var á við átta sterka kaffibolla að heyra þessa einbeittu tóna ryðjast fram.

Eftir að öllu var lokið og við búin að læsa pakkfullri skrifstofunni var haldið beint í Vinmonopolen og þaðan með strætó hingað heim þar sem stíf drykkja hófst í brennandi skini sólar. Ég er ekki frá því að ég hafi brunnið töluvert í dag.

Ekki skemmdi að einkunn fyrir MA-ritgerðina mína barst loksins og reyndist 9,0. Tveir tvöfaldir gin & tónik fóru í að fagna því. Fyrir áhugasama verður ritgerðin í heild sinni birt hér á síðunni á svonefndu PDF-formi um miðja næstu viku. Hún fjallar í sem stystu máli um skoðun íslenskra afbrotamanna á nafnbirtingum grunaðra manna í fjölmiðlum og voru niðurstöður býsna afgerandi. Meira um það síðar.

Kvöldinu lauk á uppáhaldsbarnum okkar, Chevy’s, þar sem kanadíska þungmálmssveitin Canada (frumleikinn í fyrirrúmi) lék fyrir dansi. Dönsuðu þó fæstir.

Athugasemdir

athugasemdir