Gamli sáttmáli endurnýjaður

kennitalaVið erum opinberlega til hér í landinu síðan í gær. Norskar kennitölur, skattkort og staðfesting á lögheimilisfærslu hingað biðu okkar í póstkassanum í morgun, allt stimplað í bak og fyrir af skattyfirvöldum. Ferlið tók sem sagt ekki nema 10 daga þrátt fyrir tröllasögur um þriggja vikna bið og ég veit ekki hvað. Nú er loksins hægt að demba sér inn í samfélagið, fá norsk símanúmer, stofna bankareikninga, fara í lifrarígræðslu og allt sem hugurinn girnist. Kannski er jafnvel hægt að fá kúlulán. Við erum að hugsa um að taka nettan Jón Ásgeir á þetta og hefja umfangsmikil kaup á norskum fyrirtækjum. Við skiptum svo bara aftur um kennitölu þegar loftkastalinn hrynur ofan á okkur. ÚTRÁS-101 í framkvæmd og fræðum. (MYND: Nú hef ég bréf frá kónginum eins og Sigurður Snorrason böðull sem segir af í Íslandsklukkunni.)

Með því skattkorti, sem pósturinn hefur nú fært mér, er ég í fyrsta sinn á ævinni orðinn skattþegn Noregskonungs. Þó ekki Hákonar gamla, hverjum Íslendingar gengust á hönd með Gamla sáttmála árið 1262, heldur Haraldar fimmta sem nú situr í embætti. Hann er sonur Ólafs fimmta, enginn frumleiki í þessu liði nú orðið. Þá var öldin önnur þegar Noregskonungar hétu Hákon gamli, Magnús lagabætir, Eiríkur prestahatari, Magnús berfættur og jafnvel Haraldur hárfagri (n. Harald Hårfagre). Ég yrði nú seint kallaður hárfagur þessa dagana en er að hugsa um að taka mér nafnið Atli blátönn í höfuðið á Haraldi blátönn Danakonungi en hann er talinn hafa uppgötvað bluetooth-tæknina sem nú á dögum er einn helsti staðallinn fyrir samskipti þráðlausra staðarneta (e. LAN). Samt dó hann haustið 986!

Þessi hugvekja var útúrdúr. Fram undan er viðburðarík hvítasunnuhelgi. Ef við vöknum einhvern tímann á morgun ætlum við að skella okkur í siglingu inn Lysefjorden sem er ekkert nema náttúrufegurð og sigla undir hinn hrikalega Predikunarstól (n. Preikestolen), höfuðvígi B.A.S.E.-stökkvara í Skandinavíu og víðar (skammstöfunin stendur fyrir Buildings, Antennas, Spans and Earth eða hús, loftnet, brýr og kletta og héti því réttilega H.L.B.K.-stökk á íslensku sem er alveg út í hött). Flóknara er að komast upp á stólinn en það kostar tveggja tíma göngu frá allt öðrum stað og er á dagskrá seinna í sumar. Siglingin á morgun er háð því að bar sé í dallinum, við siglum ekki edrú hér!
preikestolen
Ef við a) förum í siglinguna og b) lifum hana af stefnum við á að rölta um Gamle Stavanger sem er sagður best varðveitta timburhúsahverfi í Norður-Evrópu, sel það alls ekki dýrara en ég keypti það. Geri ráð fyrir að úrval mynda úr því rölti birtist svo hér í fyllingu tímans.

Ég bið lesendur mína nær og fjær að eiga náðuga hvítasunnuhelgi, ég ætla að minnsta kosti að gera það, svo mikið er víst. (MYND: Preikestolen við Lysefjord, náttúra í þriðja veldi.)

Athugasemdir

athugasemdir