Fyrsti sopinn – myndskeið

rica forumiiLaugardagurinn var einstakur. Reyndar klikkaði sólin sem ég var margbúinn að panta en maður getur ekki fengið allt. Þó var þægilegasta veður og vorið sigldi í lofti hraðan byr svo vitnað sé í kveðskap Jóns Helgasonar skálds og prófessors. Það er fullkominn óþarfi að vera með einhverjar málalengingar, fyrsti sopinn af tónikblönduðu Bombay-gini var sem glampandi raflost í miðtaugakerfinu. Sú merkilega forræðishyggja Norðmanna að banna sölu á tvöföldum sterkum drykkjum á börum setti auðvitað vægt strik í reikninginn en þar kom gamalt íslenskt húsráð að góðum notum – drekka þrjá einfalda á leifturhraða. (MYND: Borðhaldið hafið – hvítvín hefur leyst ginið af hólmi.)

Eins og ég lofaði, og hefur verið árlegur viðburður síðan 2009, er myndband af atburðinum komið á YouTube og sýnilegt hér. Frelsis- og gleðiandinn í þessu stutta myndskeiði dylst klárlega engum sem á horfir. Það er alltaf sama sagan, þegar fyrsti sopinn vætir kverkar í mars verður eyðimerkurganga mánaðanna á undan ávallt fullkomlega þess virði að hafa framkvæmt hana þótt vegirnir séu brattir og hálir eins og ástin í Spámannsljóði Khalils Gibran.
rica forum 2
Maturinn á Rica Forum Hotel var ekki síðri en ginið sem þeir bjóða upp á. Við fengum okkur bæði rjómalagaða sjávarréttasúpu í forrétt og vorum ekki svikin. Bragðmikil sjávarréttasúpa skilur ávallt hismið frá kjarnanum. Fátt er meira óþolandi en að fá til dæmis humarsúpu sem er eins og heitt vatn með votti af humarbragði. Þetta upplifði ég því miður gjarnan á veitingahúsinu H… á Íslandi sem var með ágæta súpu fyrir kreppu en svo tók hún breytingum með hraða myntkörfuláns frá haustinu 2008. (MYND: Rósa rýnir í matseðilinn á Rica Forum. Í baksýn glittir í ægifagurt útsýni yfir Mosvatnet. Við búum akkúrat við hinn enda vatnsins. Í fjarska sér út á Gandsfjorden.)

Ég ákvað svo að ríða á vaðið og bragða mitt fyrsta hjartarkjöt. Valið var þó nokkuð snúið milli hjartarins og nauts sem leit mjög vel út á matseðlinum. Maður veit jú alltaf hvar maður hefur nautið þótt ekki þurfi nema meðalskussa í eldhúsinu til að klúðra því. En hjörturinn bar sigur úr býtum og Rósa fékk sér sveppa-risotto sem var greinilega með erfðabreyttum sveppum en stærð þeirra var óhugnanleg. Bragðið nokkuð gott samt sem áður.

Á morgun, 15. mars, verða liðin 2.055 ár frá vígi Júlíusar Sesars Rómarkeisara árið 44 fyrir Krist og tileinka ég honum þennan pistil og fyrsta brennivínssopa ársins 2011. Sic semper tyrannis!

Athugasemdir

athugasemdir