Klukkan 16:00 í dag að staðartíma hér í Noregi hefst mitt fyrsta vetrarfrí um ævina og kemur varla til af góðu svo sem, á sunnudaginn verð ég formlega miðaldra (að minnsta kosti ef miðað er svona sirka við meðalævilíkur íslenskra karlmanna). (MYND: Á einhverjum tímapunkti í ógleymanlegri tveggja vikna dvöl í Albufeira í fyrrasumar.)
Ég get svo sem alveg eins látið berast með straumnum og fagnað þessu bara, auðvitað áfangi út af fyrir sig að verða tvítugur í annað sinn (2 x 20 = 40). Við hjónin leggjum því land undir fót og höldum til Portúgal þar sem við ætlum að dvelja rúma viku í góðu yfirlæti, mat og drykk. Sú ferðaáætlun býður upp á tvær millilendingar og stopp yfir nótt, fyrst í höfuðstaðnum hér í Noregi í kvöld og svo í Frankfurt annan sunnudag. Ekki er ég svo bjartsýnn að fara að skipuleggja Frankfurt-heimsóknina neitt að ráði en örlítið er búið að raða kvöldinu í kvöld upp.
Hamborgari á Hard Rock Café við Karl Johan-götu og gin & tónik í fordrykk eru stóru línurnar í dagskrá kvöldsins. Lýkur þar með margumræddu og árlegu þriggja mánaða þurrkatímabili mínu sem hófst eftir botnlaust hvítvínsþamb í miðbæ Björgvinjar 2. janúar og var fjallað um í pistli sem til skamms tíma sást hér á síðunni en hvarf svo í eitthvert rafrænt svarthol vegna einhverra tæknimála sem ég kann ekki að skýra en eiga ekki að geta komið fyrir aftur úr því ég er farinn að nota WordPress í stað Joomla. OK, ég trúi því bara.
Við höldum svo áleiðis til Faro í Portúgal með SAS klukkan 09:00 í fyrramálið eftir vonandi sæmilega nótt á Citybox-hótelinu í miðbæ Óslóar sem bókað var í skyndingu eftir að áætlaður hýsill, Björn Skorri Ingólfsson fyrrum skóla- og drykkjubróðir, tók sótt nokkra og var lagður inn á sjúkrahús til frekari rannsókna (góðan bata Björn!).
Annars ætla ég lítið að vera að skipuleggja næstu daga, verkefnin verða ekki flókin. Sennilega verður flóknara að snúa aftur fertugur og reyna að taka upp þráðinn í ræktinni að nýju þar sem við höfum verið alveg bærilega iðin við kolann síðan um áramót. Vikuna eftir það skella á páskar svo ég ætla að minnsta kosti ekki að vera með mjög digurbarkalegar yfirlýsingar um neitt hollustutengt.
Ég bið fólk vel að lifa meðan á þessu öllu stendur, sný svo til baka tvöfaldur og fer að takast á við næstu 40 ár.