Fátt sperrir íslensk eyru meira en hvað rætt er og ritað um landið erlendis, hvort sem er í fjölmiðlum eða almennum skoðanaskiptum manna á milli. Ég bendi þess vegna alveg sérstaklega á frábæra punkta frá bandaríska forritaranum Matt Pekar sem setti sig í samband við fréttastofu Stöðvar 2 um helgina og fór ekki í neinar grafgötur með það hvaða tökum Íslendingar ættu að taka bankabullur og útrásarkónga sem ýmist liggja í sólinni á Kanaríeyjum eða fela sig í skrifstofum í London, Kanada og Lúxemborg. (MYND: Matt Pekar/Facebook.)
Hérna má hlusta á viðtal Stöðvar 2 við Matt þennan sem ráðleggur Íslendingum að fara heim til þessara manna og hreinlega sækja peningana sem þeir hirtu af þjóðinni. Að því loknu megi svo koma þeim bak við lás og slá. Þetta er skörulega mælt og skemmtilegt að fá þarna óvæntan bandamann úr vestri sem er ekkert að skafa af hlutunum.
Skiljanlega kemur það Matt spánskt fyrir sjónir að hérna leggi menn efnahag heillar þjóðar í rúst og fari svo að kenna viðskiptafræði við næsta háskóla og sóla sig á Kanarí. Hans raunveruleiki er réttarkerfi sem dæmir slíka menn í 150 ára fangelsi og tekur sér ekki lengri tíma til þess en einn mánuð (er þar vísað til Bernards Madoff sem féfletti mörg hundruð viðskiptavini sína með Ponzi-svikamyllunni alræmdu). Matt skilur ekki það aðgerða- og máttleysi sem hér viðgengst, að hlutirnir gleymist bara smátt og smátt og þjóðin skuldbindi eigin kynslóð og að minnsta kosti þá næstu, ef ekki næstu tvær, til að hanga í skuldagálga sem enginn veit einu sinni með vissu hve hár verður þegar upp er staðið…ef við stöndum þá einhvern tímann upp.
Ég tek ofan fyrir Matt Pekar og þigg hans ráðahag með þökkum.