Fyrirspurn um endurgreiðslu flugmiða og bótaskyldu Icelandair að öðru leyti

Icelandair(sent á netfangið athugasemdir@icelandair.is kl. 12:40 í dag að norskum tíma)

Góðan daginn

Við hjónin búum í Stavanger og erum á leið í helgarferð til Íslands núna um helgina, fljúgum þangað með SAS og eigum far til baka með Icelandair, flugi FI-338, á sunnudag. Sama flug féll niður sunnudaginn 11. maí vegna aðgerða flugmanna félagsins 9. maí.

Við íhugum nú að hætta við ferðina þar sem við getum ekki tekið þá áhættu að sitja föst á Íslandi og komast ekki í vinnu á mánudagsmorgun. Ekki kemur til greina að greiða 140.000 krónur til viðbótar fyrir flug með SAS aðra leið til Noregs á sunnudaginn þar sem við höfum þegar greitt 87.000 krónur fyrir flugmiða og hótel í tengslum við þessa ferð.

Því spyr ég:

1) Verði af vinnustöðvun flugmanna á föstudag og við hættum við ferðina af þeim sökum, mun Icelandair endurgreiða okkur miðaverðið með flugi FI-338?

2) Mun félagið enn fremur bæta okkur það tjón sem við verðum fyrir vegna óendurkræfrar greiðslu okkar fyrir hótelherbergi, fyrst á Gardermoen Airport Hotel aðfaranótt 17. maí og svo á Apartment K í Reykjavík aðfaranótt 18. maí, og vegna tapaðra flugmiða með SAS til Óslóar 16. maí og til Keflavíkur að morgni 17. maí? (Breytingagjald á þessum miðum SAS er hærra en sem nemur miðaverðinu svo þá leið förum við ekki.)

Verði svör við einhverjum liðum þessara spurninga nei bið ég vinsamlegast um rökstuðning með þeirri neitun.

Með virðingu,

Atli Steinn Guðmundsson

Athugasemdir

athugasemdir