Frá prófborðinu

brt-2001Fyrsta prófi af fjórum er lokið, BRT-2001, Leting, boring og komplettering. Vissulega ýtti prófið undir leti að því loknu og var svo sem boring líka þannig að titillinn á vel við. Þessi ósköp stóðu frá klukkan níu í morgun til stundvíslega klukkan eitt eftir hádegi. Svo langt skriflegt próf hef ég ekki þreytt síðan 15. desember 2009 þegar ég tókst á við lokapróf í ágætu námskeiði Baldurs Þórhallssonar, Alþjóðasamvinna og staða Íslands í alþjóðakerfinu, við Háskóla Íslands. Eftirfarandi hef ég ritað í dagbók mína þann dag: “Ég notaði allan tímann og var síðastur út, máttlaus í vinstri hendi.”

Svipað var upp á teningnum í dag, mér var hönd ónothæf eins og segir í íslenskum kosningalögum og svarti BIC-penninn var sem bráðin klessa á borðinu. Þetta endaði í 15 síðum þéttskrifuðum hjá mér og fimm skýringateikningum sem ég hafði að einhverju leyti æft heima enda ljóst að teikna þyrfti upp casing-program í brunni, borvökvakerfi og þrýstingskúrfu fyrir drepinn brunn. Hljómar þetta spennandi?

Próf sem haldin eru á vegum hins opinbera og hægt er að kæra eru tekin á kalkipappír hérna í Noregi. Það er alveg stórmögnuð upplifun. Úrlausn er fyllt út á eina örk í einu í þríriti, hvítt-gult-bleikt, og hver örk merkt með prófnúmeri nemanda, blaðsíðutali og heiti námskeiðs. Nemandi rífur svo allan hauginn í sundur að loknu prófi, skilar hvíta og gula en heldur bleika. Þannig á ég núna úrlausn mína síðan í morgun í bleiku afriti hér heima og get lesið mér til yndisauka og skoðað hvað teikningarnar voru flottar hjá mér…eða þannig.

Gallinn við þetta kerfi er að mér leið allan tímann eins og ég væri að fylla út eyðublað hjá einhverri stofnun og þurfti að beita mig hörðu til að enda ekki hverja blaðsíðu á að skrifa undir og taka númer í biðröð til gjaldkera.

Prófið í morgun gekk bara nokkuð vel. Mér hefur alltaf fundist það mikilvægt veganesti að byrja prófatörn vel hvað svo sem við tekur. Gott fyrsta próf gefur góða tilfinningu fyrir afganginn af píslargöngunni. Á miðvikudaginn er okkur svo kastað út í alvöruna aftur, BRT-2002, Produksjon og brønnvedlikehold, og þá veit enginn sína ævina. Mörg þúsund manns um allan Noreg þreyta brønnteknikk-prófin á nákvæmlega sama tíma þessa fjóra daga í maí og prófin eru þau sömu um allt land, dálítið eins og samræmdu prófin gömlu góðu. Til marks um hvað þetta er stór hluti norska olíubransans birti Statoil langar leiknar sjónvarpsauglýsingar í gær þar sem fyrirtækið óskaði framtíðarstarfsmönnum gæfu og gengis í prófunum. Auglýsingin var tekin í Stavanger Forum-ráðstefnusalnum í Stavanger, þar sem við vorum í prófi í morgun.

Ég hlakka orðið töluvert til að mæta í vinnuna aftur, ég skal alveg játa það.

Athugasemdir

athugasemdir