Flökkusögur

flakkariNúna um helgina náðist sá merkilegi áfangi að kaupa svokallaðan flakkara. Þarna er ekki átt við níunda uppbótarþingmanninn samkvæmt kosningalögum fornum, sem svo var nefndur, heldur geymslueiningu fyrir rafræn gögn sem hentugt þykir að eiga afrit af. Þetta er smástykki en rúmar engu að síður eitt terabæti, eða þúsund gígabæti, af gögnum og kostaði litlar 595 krónur í Lefdal Elektromarked, nýju lágvöruverðsgræjufíklabúðinni uppi í Forus sem ég held að nálgist Sandgerði að flatarmáli.

Ég kalla þessi smávægilegu innkaup merkilegan áfanga þar sem þetta hefur staðið til allar götur síðan 2007 þegar ég tók það risastóra og tilfinningalega erfiða skref að leggja gömlu Olympus AF10 Super-myndavélinni minni frá 1985, sem notaðist við filmu sem geymslueiningu, og taka í notkun Olympus µ700, örsmáa og stafræna systur hennar sem ég hafði fengið í jólagjöf árið 2006 en ekki getað fengið af mér að taka úr plastinu fyrr en snemmsumars árið eftir. Með þessu skrefi varð mikil bylting í ljósmyndun hjá mér og sakna ég þess enn, eins og margir sem ég hef rætt þessi mál við, að fara með filmu í framköllun og bíða svo spenntur eftir afrakstrinum sem tók yfirleitt þrjá virka daga ef maður fór bara í næstu sjoppu en ekki í sjálfar höfuðstöðvar Hans Petersen sem í þá daga var stórveldi en er nú smábúlla í Ármúlanum. Sic transit gloria mundi, eins og einhver sagði.

Ég fer aldrei ofan af því að maður vandaði sig meira þegar maður var með 24 mynda filmu í vélinni sem kostaði handlegg að framkalla en nú þegar ekkert er lagt undir, engin framköllun, engin bið, ekkert mál. Eins sakna ég þess að dútla við að raða myndum inn í albúm og það er líka eitthvað alveg stórkostlega heillandi við gamlar ljósmyndir sem farnar eru að upplitast. Ég ætla svo sem ekki að bresta í grát hérna af fortíðarþrá en punkturinn í þessari frásögn af flakkarakaupunum er sem sagt sá, að þar sem gamla tölvan mín, sem ég var að leggja núna eftir tæplega átta ára dygga þjónustu, hélt utan um allt mitt myndasafn síðustu fjögurra ára þótti mér orðið tímabært að eiga fleiri eintök af öllu hlassinu en þetta eina. Ég tók mig því til núna rétt áðan og færði allt úr gömlu tölvunni yfir á flakkarann og svo annað eintak yfir í nýju tölvuna.

Hið gríðarlega gagnamagn sem þjóðflutningar þessir fólu í sér taldist heil 4,55 gígabæti. Allar mínar ljósmyndir síðan 2007, bréfasafn frá 2002 til dagsins í dag (sem sagt tölvupóstur sem ég vil geyma vistaður í Word-skjölum), heilt MA-nám með óteljandi verkefnum, Power Point-fyrirlestrum og ritgerðum, þar með talið sjálfri lokaritgerðinni sem var full af súluritum sem sýndu afstöðu íslenskra afbrotamanna til fjölmiðlaumfjöllunar um þá. Í hinum rafræna geymsluheimi eru þessi fjögur ár í lífi mínu eiginlega ekki neitt. Skitin tíu prósent af harðdiski gömlu tölvunnar sem rúmaði heil 40 gígabæti sem þótti alveg bærilegt árið 2003. Mér verður hugsað til línu Steins Steinarr úr ljóðinu Íslensk heimspeki: ‘Í algeimsins vídd reyndist þvermálið tæplega alin.’

Í sömu innkaupaferð fjárfestum við í stafrænni baðvog sem hóf feril sinn með þeim óleik að reikna þyngd mína án fata 98,3 kílógrömm sem er tæpum þremur minna en gamla hliðræna (e. analog) vogin sýndi fyrir nokkrum dögum. ‘Hnefar krepptir hvítna, hverjum á að trúa?’ orti Davíð frá Fagraskógi einhvers staðar. Gamla vigtin býr auðvitað yfir mun meiri reynslu en sú nýja sem er nánast ekkert nema örþunn glerplata, maður ætlaði ekki að þora að stíga á þetta. Reynist nýi útreikningurinn réttur versnar staða mín til muna í 1. maí samkomulagi okkar Kára bróður sem ég fjallaði um hér á sunnudaginn var. Í stað þess að auka þyngd mína um fimm kíló nægja mér ekki færri en 6,7 sem gera rúm 2,2 á mánuði og er mun svakalegra verkefni en talið var í fyrstu. Helvíti.

Athugasemdir

athugasemdir