Móðir alls regns glumdi á Stavanger og nágrenni í allan dag og gerir enn þegar þetta er ritað. Hellidemba er mjög vægt orðalag. Slíkt veður hamlar mjög framkvæmdagleði og ég var fljótur að sannfæra mig um að hreint glapræði væri að vera að þvælast niður í bæ í líkamsrækt eftir vinnu. Eina regnhlíf heimilisins er í henglum eftir nokkrar haustlægðir í fyrra og einhvern veginn var eina vitið að taka gamla letikastið heima.
Við slík tækifæri er óhollusta skilyrði frekar en valkostur svo ég greip hið fíknarskapandi súkkulaðibitakex Sjokoladeterapi frá Cafébakeriet í hverfisbúðinni og svo var það bara gamla rúmið með Laxness og sjóðandi neskaffi. Káin þrjú eins og þau gerast best: Kaffi, kex og Kiljan. Frúin á kvöldvakt og ausandi rigning úti. Prýðisdagur þegar upp var staðið. Á milli tók ég rispur við að skrifa upp dagbók síðustu þriggja vikna sem sat á hakanum í sumarfríinu líkt og rakstur og margt annað. Hreinn unaður sem sagt.
Nú spyrja glöggir lesendur væntanlega hvort þetta hafi allt saman farið fram án þess að áfengi kæmi við sögu. Þriðjudagur og rigning, aðstæður sem almennt myndu kalla á einn tvöfaldan hjá mér ef ekki fjóra. Svo var þó ekki. Eftir sumarfríið tók gildi dagdrykkjubann í mínu lífi. Útleggst svona: Vinna á morgun = þurrkur2 (þó frávíkjanlegt við helgarvinnu að fengnu áliti mínu). Þetta hljómar auðvitað illa en kemur aðallega til af því að drykkja er dýrara áhugamál en golf og nú er niðurskurður eftir sumarfríið. Um leið tekur gildi fast vikupeningakerfi á heimilinu að viðlögðu vatni og brauði svo þetta verður ekkert grín. Niðurskurður Grikkja fölnar allur í samanburðinum. Það versta er að ég leita í kaffið í stað Bakkusar og neyðist nú til að drekka koffeinlaust neskaffi á kvöldin svo ég eigi von um svefn. Er einmitt að því núna. Þetta er botninn, svei mér þá.
Ég rak upp stór augu þegar tölfræðin yfir atlisteinn.is barst með tölvupósti í gær. Lesturinn rauk upp um 61 prósent í síðustu viku þrátt fyrir enga hreyfingu á síðunni frá 23. júní og yfirlýsingu um næsta pistil í gær, 18. júlí. Skýringin blasti við í kaflanum um leitarorð sem oft hefur verið merkilegur. Það var þá andlát Sævars Ciesielski í síðustu viku sem var kveikjan (blessuð sé minning hans að sjálfsögðu). Við fregnir af því fengu margir Íslendingar greinilega löngun til að rifja upp Guðmundar- og Geirfinnsmál ársins 1974 og leituðu á náðir hinnar rafrænu véfréttar Google í þeirri viðleitni.
Ein af fyrstu leitarniðurstöðunum verður þá pistill sem ég skrifaði þegar ég sat yfir MA-ritgerðinni í fyrra, Guðmundar- og Geirfinnsmál í nýju ljósi. Þar dáðist ég að bók Þorsteins Antonssonar, Áminntur um sannsögli, og hvet ég þá sem dottið hafa inn á pistilinn vegna fróðleiksþorsta um þessi mál að lesa þá bók. Hún er mjög ítarleg heimild.
Nú ætla ég að sofna áfengis- og koffeinlausum svefni. Það er reyndar stytt upp.