Fjör kenni oss eldurinn frostið oss herði…

mynd0306Margt fór öðruvísi en ætlað var á bryggjunni hjá Phillips í dag þegar stöðva varð lestun birgðaskipa klukkan 14 vegna veðurs en rok var þá yfir þeim mörkum sem reglur leyfa við kranavinnu. Til stóð að lesta rúma þúsund fermetra á þrjú skip í dag og senda allt út í Norðursjóinn í nótt en svo fór sem fór og nú bíður hörkuvinna við lestun á morgun og hugsanlegt er að jóladagur verði notaður í það sama. (MYND: Rafmagnað og eldfimt andrúmsloft eru þekkt fyrirbæri en hér er það beinlínis í sprengihættu.)

Andrúmsloftið er býsna eldfimt þar sem aftakaveður hefur verið á hafi og úti og bíða nú sjö skip losunar við borpalla þar en ekki má fara í það mál sé ölduhæð yfir fjórum metrum og er víst vel yfir þeim mörkum. Auk mörg þúsund tonna af tækjabúnaði bíða á þilförum þessara skipa 18 frystigámar með jóla- og áramótamat þeirra sem eiga vaktina á pöllunum yfir hátíðirnar svo nú er bara að vona að veðrið gangi niður í nótt og á morgun en því er reyndar spáð.mynd0303 (MYND: Við upphaf lestunar í morgun, þarna andaði suðrið sæla heldur betur vindum þýðum.)

Töluvert gengur á í bransanum þessa dagana og fór svo að á miðvikudaginn var ég spurður varfærnislega af nú fyrrverandi yfirmanni mínum hvort til greina kæmi að ég byrjaði í nýju stöðunni strax í stað 4. janúar. Þar sem ég hef yfirleitt verið maður bóngóður varð ég þegar við þessu, tæmdi skápa mína og flutti allt hafurtaskið niður í nýjar vistarverur í vörumóttöku ConocoPhillips þar sem ég hóf formlega störf klukkan 08 á fimmtudagsmorgun. Nú er ég kominn með þessa fínu skrifstofu rétt við sjávarsíðuna og risastóran tölvuskjá en starfið felst í móttöku á vörum í birgðastjórnunarkerfi fyrirtækisins og miðlun þeirra áfram út á reginhaf. Ég held áfram á bryggjuvaktinni góðu fjórðu hverja viku svo þetta gæti varla verið betra. Miklu styttra í mötuneytið líka af nýja staðnum.

Við klikkuðum á jólakortunum í ár. Ekki var ásetningur á bak við það, við vorum búin að kaupa þau og allt, það eina sem vantaði var að setjast niður með kertaljós og eitthvað gott í glasi og veita blekinu út á pappann. Þar stöðvaðist ferlið. Ég ætla ekki að reyna að afsaka þetta neitt og er niðurbrotinn núna þegar jólakortin streyma til okkar yfir hafið frá landi elds og ísa. Fyrir þau þökkum við þrautseigum sendendum af alúð og lofum að standa vaktina fyrir næstu jól.mynd0305 (MYND: Þrútið var loft og þungur sjór. Af þilfarinu á Skandi Nova í morgun, séð yfir til Asco í Risavika.)

Ísskápur heimilisins er þaninn af kalkúni, hangikjöti, malti, appelsíni og gnótt meðlætis auk þess sem tvö kíló af rammíslensku Nóakonfekti, flatkökum og sælgæti eru vel geymd inni í skáp. Það er Islandsfisk sem enn einu sinni á heiðurinn af að sjá okkur fyrir jólamat en þeir bræður voru hér á ferð fyrir viku, færandi varninginn heim eins og þar segir. Þá hefur áfengisdeild atlisteinn.is valið rauðvínið með jólamatnum af kostgæfni en þar verða Luna (Chile) og Boheme (Ítalía) á borðum, hvort tveggja úrvalsvín. Við græðum klukkutíma í matarumstanginu á morgun þar sem hér verða jól með tímamismun eins og í fyrra. Steikin verður sneidd á mínútunni 19:00 til hnattrænnar samræmingar við guðsþjónustu í Dómkirkjunni í Reykjavík sem verður útvarpað hér á heimilinu með stuðningi lýðnetsins. Þannig hljóðar víst hið heilaga orð.

Eitthvað verður sennilega um vinnu yfir bláhátíðirnar en það þýðir ekkert annað en gera gott úr því, jóladagur ber til dæmis 200 prósenta hátíðarálag svo maður hefur bara gott af því að lesta eins og einn eða tvo dalla þá. Áramótunum verður svo fagnað í borginni við síkin, Amsterdam, þar sem rafhlöðurnar verða fylltar fyrir stórátök næsta árs en þá leggst skólaseta við aðrar daglegar athafnir. Óþægilega stutt í þetta orðið…

Nú hefst suða hangikjöts með tilheyrandi ilmi, jólakveðja atlisteinn.is verður að sjálfsögðu á sínum stað á morgun og svo áfram hörð og óvægin umfjöllun um lífið og tilveruna næstu daga og misseri. Því sjá, ég boða yður mikinn fögnuð…

Athugasemdir

athugasemdir