Undarleg blanda hátíðleika og spennu lagðist yfir þegar við vinnufélagarnir á röravellinum hjá ConocoPhillips hópuðumst saman á kaffistofunni rétt fyrir klukkan 10 í gærmorgun til að hlýða á dómsuppkvaðningu í Breivik-málinu. Kaffistofutölvan réð engan veginn við að sýna okkur útsendinguna af síðu NRK, annaðhvort vegna þess að allt fyrirtækið hefur hrúgast þangað inn á sama tíma eða vegna þess að netþjónar NRK hafa ekki ráðið við að hafa allan Noreg þar inni á sama tíma. Kemur út á eitt. (MYND: Frá Gladmat-hátíðinni í Stavanger 23. júlí 2011.)
Svíar gripu þá til þess ráðs að fara inn á heimasíðu sænska ríkisútvarpsins SVT þrátt fyrir kröftug mótmæli mín sem taldi RÚV besta kostinn í stöðunni en var atkvæðum borinn. Helvítis Svíar. Jæja, það gekk svo sem.
Allur hópurinn sat svo í andaktugri þögn og hlustaði á Wenche Elizabeth Artnzen flytja dómsorðið. Samdóma álit vinnufélaganna var að eðlilegast væri að hlusta einnig á sex klukkustunda upplestur á 90 blaðsíðna dómsforsendum og lagarökum en næsti millistjórnandi felldi þann úrskurð úr gildi með neitunarvaldi.
Ég man ekki eftir annarri eins stund við neyslu fjölmiðla síðan Ólafur Ragnar synjaði fjölmiðlalögunum staðfestingar 2. júní 2004 og við lágum fjórir yfir útvarpinu inni á örmárri skrifstofu minni hjá tollstjóra, Leó Örn Þorleifsson, Guðmundur Þór Bjarnason, Ívar Alfreð Grétarsson og ég. Það var náttúrulega alíslenskt efni en ég tengi mig líka meira við Breivik-málið fyrst ég bý hér.
Efnislega var dómurinn sennilega sanngjarn. Að minnsta kosti er norskur almenningur sáttur og það er fyrir mestu, athæfið beindist gegn honum. Vinnufélagar mínir höfðu lítið um þetta að segja en voru almennt á einu máli um að manninn ætti að loka inni og henda lyklinum. Sennilega hefur enginn norskur einstaklingur vakið aðra eins reiði þjóðarinnar síðan Vidkun Quisling varð forsætisráðherra í skjóli Þjóðverja 1942. Hann var tekinn af lífi við Akershus-kastala í Ósló en Norðmenn afnámu svo dauðarefsingu árið 1979. Ljóst er hver örlög Breivik hefðu orðið annars.
Ég hafnaði viðtali við morgunútvarp Rásar 2 á þeim forsendum að sennilega yrði allt liðið hér úti að vinna á stund dómsuppsögu og enginn tími til að fylgjast með þessu, hvað þá greina frá viðbrögðum vinnufélaga minna, almennra Norðmanna. Verkefnastaðan var þannig að við náðum að taka kaffitímann á réttum tíma en það hefði getið farið á alla aðra vegu. Ég er ekki farinn að hlusta á upptökuna úr morgunútvarpinu en býst við að þau hafi fundið góðan viðmælanda til að taka við af Gísla Kristjánssyni snillingi sem var í réttarsalnum í Ósló.
Mikil yfirvinna hefur einkennt líf okkar hjóna í vikunni. Rósa er að vinna núna og búin að vera til ca. 21 öll kvöld liðinnar viku en ONS-olíuráðstefnan í næstu viku skellur af fullum þunga á hennar vinnustað. Ég hef átt þrjú góð kvöld fram eftir hjá NorSea og í morgun hringdi vaktstjóri þaðan og spurði hvort ég gæti mætt klukkan 9 í fyrramálið. Ekki vandamálið auðvitað, eini gallinn er að ég þarf að hætta að drekka á miðnætti í kvöld. Finni vísindamenn einhvern tímann yfirvinnugenið verður það sennilega í mér.
Í september verður keypt bifreið hingað á heimilið. Með því lýkur tveggja og hálfrar klukkustundar daglegri viðveru okkar í strætisvagni númer 9 sem ekur milli Sandnes og Sola. Kannkat þat lasta, eins og Gísli sagði í vísu sinni er þeir Þorgrímur áttust við í knattleikunum á Seftjörn. Ég á seint eftir að sakna þessa sorglega líkvagns sem nían er, líkust gufubaði í loftræstingarleysi sínu og snúin pólskum vagnstjórum sem þekkja ekki leiðakerfið og þurfa aðstoð frávita farþega við að rata fram úr þokunni. En ég hefði ekki viljað missa af því að tilheyra strætisvagnasamfélagi Stavanger og nágrennis í tvö og hálft ár. Þetta eru hrein félagsvísindi.