Alveg er það með ólíkindum hvað fjölmiðlar landsins eru seinþreyttir við að níða skóinn af starfsfólki bankanna sem af ósérhlífni og sjálfsbjargarviðleitni reynir að skrimta í kreppunni og ala önn fyrir sér og sínum. Hvort tveggja Ríkissjónvarpið og Stöð 2 féllu niður á það lágkúrulega plan í kvöldfréttum sínum 3. desember að blása það upp að fátækur bjargálnamaður, sem lenti í því fyrir hreina óheppni að verða framkvæmdastjóri Landsbankans, hafi dirfst að krefja bankann um laun fyrir vinnu sína. (MYND: Ungur starfsmaður Landsbankans berst fyrir lífi sínu og opnar nýtt útibú.)
Það er ömurlegt að fjölmiðlar lýðveldisins finni ekki verðugra fréttaefni en að bláfátækur fjölskyldumaður með fjölda soltinna munna heima í óhrjálegu koti sínu fari niður á hnén og grátbiðji harðbrjósta vinnuveitanda um litlar 148 milljónir króna í laun, upphæð sem mælist varla í augum herraþjóðarinnar í Landsbankanum. Fréttaflutningur á borð við þetta ber vott um hreint mannhatur og er aðeins til þess fallinn að troða lítilmagnann enn dýpra ofan í svaðið…er ekki nóg komið!
Eins og framangreint sé ekki nægilega andstyggilegt slá harðbrjósta fréttamenn því einnig fram að mannkertið hafi, í ljósi bágra kjara og nánast hungurdauða, seilst skjálfandi höndum eftir einhverjum 120 milljónum sem varla hrökkva fyrir salti í eina grautarskál. Hvað þá hálfri fylli á eldsneytistank Land Rover-bifreiðar. Þarna var nauðstaddur maður einfaldlega að bjarga lífi sínu og fjölskyldu sinnar. Síðan hvenær telst það glæpur að biðja um laun og bjarga laununum sjálfur fáist þau ekki greidd? Samanlögð launakrafa og sjálfshjálp er 248 milljónir. Alveg er það magnað að fólk við dauðans dyr bjargi lífi sínu með því að stela sér til matar á meðan kóngarnir sem settu landið á hausinn sitja glottandi í skattaskjólum sínum.
Til að bíta höfuðið af skömminni nafngreinir Stöð 2 mannvesalinginn sem heitir Haukur Þór Haraldsson og býr eins og réttur og sléttur almúgamaður í Seljahverfinu í Breiðholti. Sennilega myndi hann selja hverfið til að bjarga lífi sínu gæti hann það. atlisteinn.is skorar á fjölmiðla landsins að láta Landsbankamenn í friði. Hvað hafa þessir menn gert okkur? Hvar værum við án þeirra? Þrotabú eru líka bú!
Sá yðar sem syndlaus er geri fyrstu kröfuna!