Fólk deyr, giftir sig og fæðist af miklum krafti þessa dagana (ekki endilega samt í þessari röð). Ég man varla eftir öðrum eins fjölda dánartilkynninga og í blöðunum undanfarna mánuði, sem betur fer auðvitað flest fólk sem búið er að finna sinn eikarlund (sbr. samnefnt allegórískt kvæði Staðarhóls-Páls) og komið að eðlilegum leiðarlokum miðað við árafjölda og þar fram eftir götunum. Tvö banaslys í umferðinni í þessari viku varpa þó dimmum skugga á þá tölfræði.
(Myndin er af umslagi ágætrar plötu Morbid Angel, Altars of Madness, sem tengist brúðkaupshluta þessa pistils) En tökum upp léttara hjal. Um leið er fólk að drita niður afkvæmum í gríð og erg í kringum mig og allir vinir mínir meira og minna óléttir (ja, ekki þeir sem karlkyns eru auðvitað en…), nýbúnir að fjölga á landinu eða í miklum hugleiðingum varðandi slíkt. Væntanlega er þetta skemmtilegt en persónulega myndi ég nú, eins og ég hef oft lýst yfir í heyranda hljóði, frekar ættleiða fimmtugan Indverja, senda hann beint út á vinnumarkaðinn og spara mér bleiutímabilið. Fólk er auðvitað misjafnt og sumir jafnari en aðrir.
Þá er komið að þriðja hópnum en það er giftingargengið. Nú streyma hér um lúguna hjá mér boðskort í brúðkaup eða brúðkaupsveislur svo minnir á snædrífu. Tvískiptingin er vegna þess að síðarnefndi hópurinn er sniðugur, giftir sig í friði og heldur svo veislu fyrir vini og fjölskyldu seinna þannig að sauðsvörtum pupulnum er hlíft við þeirri sálumessu sem embættismenn þjóðkirkjunnar eru skyldugir að þylja yfir hjónaefnunum. Það skal reyndar viðurkennt að þetta er ekki alltaf dauðinn á skriðbeltum af leiðindum, séra Örn Bárður Jónsson, sóknarprestur í Neskirkju, var með hreint uppistand í kirkjunni (reyndar Seltjarnarneskirkju) þegar hann færði aldraðan föður minn í viðjar heilags hjónabands 7. júlí árið 2007. Á tímabili voru kirkjugestir ekki vissir um hvort það væri Andrew Dice Clay eða séra Örn sem þjónaði fyrir altari í þeirri athöfn. Kraginn einn skar úr um það.
Hvað um það, ágætur vinur minn, Arnór Geir Jónsson, ungur mannfræðingur og embættismaður hjá Reykjavíkurborg, gekk í hjónaband að heiðnum sið núna snemma í maí í Stokkseyrarfjöru. Það var svo í dag sem kort í bundnu máli og allt hið glæsilegasta barst frá honum með boði í brúðkaupsveislu í guðsgrænni náttúru úti á landi í júlí. Þetta finnst mér stórsniðugt. Eðli málsins samkvæmt hefur fólk meira gaman af því að gifta sig að sumrinu hér á landi ísa. Hitti dagurinn á einn af tíu sólardögum íslenska sumarsins getur kirkjusókn í brakandi sparifatnaði ært óstöðugan, sbr. hið fornfræga orðatiltæki að svitna eins og hóra í kirkju, en margan kirkjubekkinn hef ég vætt svita mínum við slíkar aðstæður og þótt mispirrandi eftir hitastigi og árferði.
Jarðarfarirnar eru þó skárri að því leyti að dauðans óvissi tími jafnar þeim yfir árið eftir vitjunartíma hvers og eins og oftar hef ég þolað nístingskulda, slyddu og él á grafarbakka þeirra sem gengnir eru en sólskin og hita á kirkjubekknum.