Fréttir kvöldsins voru hressandi og upplýsandi. Stöð 2 greindi frá því að Finnur Sveinbjörnsson, bankastjóri Kaupþings, KB, Nýja Kaupþings, Arion og allra þessara banka, hefði gengið út úr Icebank með hressandi starfslokasamning sem fólst í uppgufun 850 milljóna kúluláns hans. Á sama tíma berast fréttir af því að þeir starfsmanna hans sem dirfist að sækja um greiðsluaðlögun geti tekið sinn tóma poka og leitað sér starfsframa annars staðar. Það sem þér viljið að aðrir gjöri yður skulið þér passa að gjöra þeim ekki undir neinum kringumstæðum.
Í fréttum var einnig sagt frá því að verslanir Krónunnar ættu Íslandsmet í að verðmerkja vörur ekki eða illa og helst þannig að verðið hækkaði óvænt við kassann miðað við það sem stóð á hillunni. Reyndar fylgdi sögunni að ýmist væri verð á hillu of hátt eða of lágt. Það virðist vera misjafnt milli verslana. Á fyrstu fimm mánuðum þessa árs lenti ég í því átján sinnum í Krónunni í Mosfellsbæ að reynt var að rukka mig of mikið við kassann – aldrei gengu þessi sérstöku mistök í hina áttina og varan reyndist óvænt ódýrari við kassann. Merkilegt. Krónunni tókst fyrir vikið tvisvar að verða sér úti um titilinn Klósett vikunnar hér á atlisteinn.is.
Að lokum kærði ég verslunina til Neytendastofu (og veit að fleiri fóru sömu leið) og viti menn – málið var að lokum tekið fyrir hjá stofnuninni. Ekki hraðvirkasta stjórnsýsla í veröldinni en sígandi lukka er best.