Finnsk-sænskt gæðaeftirlit

elixiaÉg fékk merkilegt símtal núna í byrjun vikunnar. Þegar ég svaraði kynnti hin sænska Jenny sig fyrir mér og kvaðst hringja frá Elixia (líkamsræktinni okkar sem sagt). Starfsfólk Elixia er meira og minna allt sænskt þótt keðjan sé finnsk. Finnarnir ráða sennilega Svía og greiða þeim lægri laun en þeir myndu borga Norðmönnum og ná sér þannig niðri á þessum nágrönnum sínum en mikill rígur er milli Svíþjóðar og Finnlands líkt og reyndar Svíþjóðar og nánast allra nágrannalandanna.

Hvað um það, Jenny þessi sagðist hafa samband til að kanna hvernig mér líki að æfa í Elixia og hvort stöðin hafi staðið undir væntingum fram að þessu. Þetta gæðaeftirlit er mjög norskt fyrirbæri og getur lýst sér einstaklega undarlega. Til dæmis í þessu samhengi. Nú hef ég mætt sex sinnum í viku til daglegrar þjáningar minnar í Elixia síðan við skiptum þangað úr SATS, gömlu líkamsræktinni okkar. Ég er þá varla mjög ósáttur fyrst ég a) er ekki farinn til baka og b) ég held uppi þokkalegri mætingu án kvartana. Ég benti Jenny á þetta en hún vék sér fimlega undan með því að svara því til að hér væri á ferð strangt gæðaeftirlit samkvæmt einhverjum staðli sem ég kann ekki að nefna lengur. Að lokum spurði hún hvort ég hefði áhuga á að mæta í hóptíma sem ég afþakkaði kurteislega.

Ekki er nóg með þetta heldur hef ég heyrt út undan mér frá fólki sem mætir ekki eins stíft og ég, mætir jafnvel ekki neitt eftir að hafa skellt sér á ótímabundna áskrift (ég nefni engin nöfn Elli, þetta er allt í lagi), að þá komi kurteislegt símtal þar sem spurt er hvort heilsan sé nú ekki örugglega í lagi og með ískrandi kaldhæðni hvort ekki séu daglegar bætingar í gangi í bekknum. Maður sæi þetta nú ekki fyrir sér í íslenskum líkamsræktarstöðvum. Þar prísuðu eigendur sig sennilega sæla með alla stuðningsaðilana sem kaupa kort og sjást svo ekkert en styrkja þó góða líkamsræktarstöð áfram í stað þess að vera að gaufa þar gerandi ekki neitt nema vera súrefnisþjófar fyrir þá sem eru að æfa eins og fólk.

En nú ætla ég einmitt að andskotast á æfingu í musteri gæðaeftirlitsins. Axlapressan bíður ekki eftir neinum frekar en tíminn.

Athugasemdir

athugasemdir