Milli klukkan 13 og 14 í dag lauk ég verklega hluta 30 eininga MA-verkefnis á 53 mínútum (undirbúningur reyndar ekki meðtalinn). Mínir gömlu félagar á Bylgjunni komu til móts við mig og leyfðu mér að taka upp umræðuþátt þar sem ritgerðarefnið var krufið til mergjar, það er að segja nafnbirtingar grunaðra manna í fjölmiðlum. Mér tókst að stefna til mín fjórum valinkunnum einstaklingum niður á Bylgju sem voru þeir Helgi Gunnlaugsson, prófessor í afbrotafræði og leiðbeinandi minn í fræðilega hlutanum, Friðrik ‘Lilló’ Guðmundsson, blaðamaður og nefndarmaður í siðanefnd Blaðamannafélags Íslands, Reynir Traustason, ritstjóri DV, og Einar Marteinsson, forseti MC Iceland, sem var nafngreindur fyrir þátt sinn í sakamáli undir síðustu aldamót.
Þetta eru allt þungavigtarmenn, hver á sínu sviði, og gekk þátturinn eftir því – alveg glimrandi. Ég komst ekki einu sinni yfir allar spurningarnar og fór þó í 53 mínútur, stefnan var sett á 40.
Þeir Bylgjumenn íhuga nú að senda þáttinn út, að minnsta kosti að hluta, og óneitanlega ljáir það verkefninu töluvert meiri þunga að koma því í loftið í stað þess að skila því eingöngu á diski til leiðbeinanda. Þetta kemur í ljós á næstu dögum. Hvað sem öllu líður mun ég að lokum setja þáttinn í heild sinni hér á síðuna og get alveg lofað áhugaverðri umræðu. Bylgjan hefur þó heimsfrumsýningarréttinn svo við hinkrum aðeins með þetta.
Þá er það bara ritgerðin sjálf sem er lokavígið og nú hef ég víst enga afsökun fyrir að hespa hana ekki af. Ég mun því sitja á hinum óæðri enda mínum næstu vikur og koma þessu af mér…sléttum 10 árum eftir að ég sat við að skrifa BA-ritgerð í íslensku. Það má eiginlega ekki líða skemmra en áratugur á milli stórra fræðilegra ritgerða, það er svona hæfilegt. Stærsti munurinn er að þá hafði ég blessað tóbakið að halla mér að og oft létti reykurinn mér lífið yfir skrifum. Ég drap í þeirri síðustu daginn sem ég kláraði heimildaskrána og hef ekki snert tóbak síðan.