Fimm ár í Noregi

IMG_20140607_122733Dagurinn í dag, 11. maí, markar ávallt viss tímamót þar sem hann er flutningaafmælið okkar. Þriðjudaginn 11. maí 2010 lentum við hér í Stavanger og létum það verða okkar fyrsta verk að skipta um kennitölur og flytja lögheimili okkar til útlanda svo sem siður var vafasamra bankahrunsfyrirtækja á þeim skemmtilegu tímum. (MYND: Gengið á Preikestolen í júní 2014.)

Ég gerði töluverða grein fyrir fyrstu mánuðunum í Noregi í þessum pistli á þriggja ára afmælinu fyrir tveimur árum og eðlilega er ekki eins skammt stórra högga á milli þegar ég lít til baka nú, tveimur árum síðar. Viss festa á vinnumarkaði hefur nú færst yfir og ég vonandi kominn í það starf sem ég mun gegna þar til sól eftirlaunaáranna rís, björt og fögur. Alla vega litlar líkur á að maður detti aftur inn í vertíð hjá norsku sláturhúsi líkt og hið ævintýralega haust 2010.

Nú ætla ég ekki endilega að fullyrða að ég hafi eintóma gáfulega hluti gert í lífinu, hætt við að hlátrasköll gyllu þá um víðan völl, en sennilega hef ég fátt gáfulegra gert en að takast á hendur þau fróðlegu vistaskipti sem þessir Noregsflutningar reyndust verða. Algengar raddir sem heyrast gjarnan snúast um að sá hópur sem skotið hefur rótum í Noregi og verið ánægður hér haldi því fram að „allt sé betra í Noregi“, ég væri vellauðugur fengi ég smápening fyrir hvert skipti sem ég hef fengið að heyra það.

Þetta er rangt. Ég held að ég hafi reyndar aldrei heyrt neinn halda þessu fram og klárlega hef ég ekki sagt það sjálfur. Í Noregi er nefnilega margt mun verra en á Íslandi og á sumum sviðum ríkja nákvæmlega sömu vandamál. Sem dæmi má nefna að vegakerfi landsins er á mörkum þess að vera gert fyrir bíla, ánægðustu ökumennirnir hér eru bændur á dráttarvélum því þeir komast hvort sem er ekki hraðar en 40 en eru í kaupbæti hötuðustu vegfarendurnir. Þá eru almenningssamgöngur í Stavanger og nágrenni á pari við meltingu Sarlacc-ófreskjunnar í Return of the Jedi…hægar. (MYND: Frá 17. maí hátíðarhöldum í miðbæ Stavanger 2010.)P5170031

Þungvinn skriffinnskukerfi hins opinbera valda því (víða, ekki alls staðar) að hlutir sem ættu að vera einfaldir geta tekið ógurlegan tíma, oft eru þetta þó reyndar sem betur fer atriði sem hver einstaklingur þarf bara að framkvæma einu sinni eða sjaldan um ævina og af öllu opinberu á skatturinn reyndar hrós skilið fyrir ótrúlega þægilegt rafrænt aðgengi.

Biðraðir í norsku heilbrigðiskerfi eru þannig að margir eru hreinlega steindauðir löngu áður en þeir fá boðun í aðgerð og þegar ég starfaði á Háskólasjúkrahúsinu í Stavanger stóð þar galtóm og lokuð glæný og ein fullkomnasta smitsjúkdómadeild á Norðurlöndum, einfaldlega vegna þess að ekki fékkst fjárveiting til að reka hana. Norskur landbúnaður er hættulega ríkisstyrktur, mjólkursamsalan TINE, sem reyndar er í eigu mjólkurbænda, kemur fram sem hvort tveggja, eftirlits- og framleiðsluaðili, á sviði mjólkurafurða og naut fullkominnar einokunarstöðu á markaðnum allt til 2005. Fín mjólk og ostar frá þeim samt.P6120208

Í norskum kvikmyndahúsum er ekki hlé og ég þarf ALLTAF að pissa minnst einu sinni pr. mynd, þetta veit bíóið í Sandnes greinilega því nú eru þeir nýfarnir að selja inn á klósettin líka en ég set krók á móti bragði með því að hlaupa niður brunaútganginn og lauma mér inn á fatlaða klósettið á Quality Residence Hotel við hliðina á og hlaupa svo sömu leið til baka. Einu sinni var myndin búin þegar ég kom aftur. (MYND: Ógleymanlegir tónleikar Don Henley og félaga í The Eagles á Viking Stadion um hvítasunnuna 2011.)

Í Noregi er ekki KFC, sem jaðrar við mannréttindabrot, forræðishyggja hér er á því stigi að ég verð undarlegur á svipinn á börum erlendis þegar ég er spurður hvort ég vilji einfaldan eða tvöfaldan, hér er enginn jarðhiti og rafmagn til hús- og vatnshitunar kostar handlegg, Avinor (norska Isavia) selur hæstbjóðanda einokunarstöðu á norskum flugvöllum og norskur almenningur hefur líklega búið við aðeins of margar vinstri stjórnir til að hafa gott af því. (MYND: Stavanger var ein af viðkomuhöfnum The Tall Ships Races-siglingakeppninnar sumarið 2011.)P7280213

Hins vegar er hér blómstrandi vinnumarkaður, mjög víðtæk sátt ríkir um kjaramál, launþegar á lægstu launum geta lifað af tekjum sínum þótt þeir fari ekki um á einkaþotum og snæði gull, þjóðfélagið virkar eins og manni finnst eðlileg þjóðfélög eiga að gera og á þeim fimm árum sem ég hef búið hér hef ég komist langleiðina með að gera upp allar mínar skuldir við íslenska banka- og lífeyrissjóðakerfið. Síðastliðin fimm ár hafa í stuttu máli verið einstaklega ánægjuleg þótt ávallt hlökkum við mjög til Íslandsheimsókna en óvíða er skemmtilegra að vera ferðamaður en á Íslandi verð ég að segja.

Frábær fimm ár að baki í dag og maður getur ekki annað en vonað…já hvað á maður svo sem að vona? Líklega að næstu fimm ár verði ekki síðri, það eru svo sem ekki litlar kröfur en spyrjum að leikslokum.

Athugasemdir

athugasemdir