Ferðalok

susiiÍ dag lauk ég störfum á Háskólasjúkrahúsinu í Stavanger…í annað sinn. Á ég þar með að baki samtals tólf og hálfs mánaðar starf þar í tveimur stöðum og með tveggja og hálfs mánaðar hléi í fyrrahaust vegna haustsláturvertíðarinnar góðkunnu. (MYND: Þarna var ég með skrifstofu.)

Dagurinn var með hefðbundnum lokadagsblæ og reyndar merkilegt frá því að segja að fyrir sléttum áratug hætti ég einmitt sem prófarkalesari á Morgunblaðinu og sneri aftur til háskólanáms. Það var 31. ágúst 2001. Svo segja menn að tíminn endurtaki sig aldrei. (MYND: Garðurinn góði. Ég á nú eftir að sakna þess að taka kaffi og sólbað í þessum sælureit.)
susiii
Nú jæja, ég fékk kökur og kaffi með samstarfsmönnum mínum í hádeginu, blóm, kransa og kort og ég veit ekki hvað. Naumast það er gleðin að losna við mann. Þá lá straumur fólks á skrifstofuna mína í allan dag til að kveðja og komu flestir á versta tíma þar sem ég sat hálfóður við að raða endalausu pappírsflóði inn í viðeigandi möppur eftir sumarið (og sennilega vorið líka) en þá gat verið þægilegt að leggja skjöl í snyrtilega bunka hingað og þangað um herbergið í stað þess að hjóla strax í götun og flokkun. Við þetta sat ég með Stolt siglir fleyið mitt á síbylju (e. repeat) á YouTube og var greinilegt að mörgum erlendum gestinum á skrifstofu minni þótti verkið nokkuð framandi. (MYND: Gæti verið hluti af loftmálverki Michelangelo í Sixtínsku kapellunni en þá er þetta í raun hrúga af skítugum moppum að bíða eftir þvottavélinni. Myndrænt.)
susiv
Eftir skil á lyklum, aðgangskorti og síðast en alls ekki síst símahelvítinu, sem væri fyrir löngu búið að gera mig gráhærðan hefði ég hár í það, gekk ég út af stofnuninni með sól í sinni og alveg fjallhress með lífið…alveg þangað til ég mætti á fyrstu taekwondo-æfingu haustsins klukkan 17:30. Ég er enn þá í steik eftir hana og illt í öllum útlimum en þarna var um að ræða fyrstu hreyfingu mína af þessu tagi síðan í gráðuninni 8. júní. Klúbburinn stóð svo sem fyrir einni æfingu á viku í sumar og ég var alltaf á leiðinni, en…
susv
Nú jæja, dagurinn í dag er ekki bara þungavigtardagur í mannkynssögunni vegna þessara starfsloka minna. Ég byrja í nýrri vinnu á morgun og á eftir að halda brauðstritinu áfram í einhver 30 ár komi ekki til stórkostlegir lottóvinningar. Hér er bara um smábeygju að ræða. (MYND: Rósa verður eitthvað áfram á spítalanum sem fulltrúi okkar. Þarna er hennar vinnustaður, sengesentralen. Ekki réði ég við að vinna þarna, ég væri steinsofandi!)

Pabbi lauk hins vegar störfum fyrir fullt og allt í dag, 72 ára gamall, og telst þá loksins endanlega kominn á eftirlaun eftir ýmsar frestanir og framafhummanir síðustu ár. Guðmundur Elíasson lyflæknir, Domus Medica, 3. hæð, hefur yfirgefið bygginguna. Þetta er stórmerkilegt þar sem pabbi hefur unnið þarna nákvæmlega síðan ég fæddist vorið 1974, meira að segja á sömu hæðinni öll 37 árin. Enn merkilegra er að við feðgar hættum báðir störfum í heilbrigðiskerfinu sama dag en hvor í sínu landinu. Ekki hefði maður séð þetta fyrir, svei mér þá.
bstaur07
Ég óska karlinum alla vega rækilega til hamingju með að hafa skóflað ævistarfinu frá og bíð spenntur eftir ávexti þeirra hótana sem komu í símtali fyrr í  kvöld en þær gengu einkum út á það að nú yrði hann í World Class allan daginn og við bræður kæmum til með að líta út eins og feitir sköllóttir haugar við hliðina á honum fyrir jól. Den tid den sorg segi ég nú bara. (MYND: Við feðgar á góðri stundu uppi í bústað. Býsna sterkur svipur með okkur en hann er vinstra megin.)

Athugasemdir

athugasemdir